AGGF. Ég fór í fyrsta leikfimitímann í dag hjá AGGF. Líklega er þetta nítjánda árið sem ég er í þessum hópi. Myndin er af ljóði sem Þórarinn Eldjárn skáld orti og gaf leikfimistjóranum þegar við fluttum í nýtt húsnæði á síðasta ári. Ég er ekki í vafa um að þátttaka mín í þessum hópi hefur gert manni gott. Oft hefur maður þó þurft að takast á við sjálfan sig í mætingunum.Nú svo fékk ég skeyti frá formanni Skaftanna um að senn hefjist söngæfingar að nýju.
Tómas, Hjálmar og Sveinn Í gær eftir vinnu hringdi Hjálmar Styrkársson í mig og bauð mér með stuttum fyrirvara austur fyrir fjall í mat. Ferðinni var heitið að heilsuhælinu í Hveragerði þar sem við snæddum grænmetisrétt með Tómasi Sæmundssyni vini okkar. Þetta eru menn sem báðir eiga langa sögu í sjávarútveginum. Tómas lengst af sem útgerðarmaður og skipstjóri á Hafnarberginu RE 404 og Hjálmar sem lengi var hjá Einari Sigurðssyni í Vestmannaeyjum. Við áttum þarna saman góða stund og fórum yfir stöðu dægurmálanna.
Arnarbæli. Við Hjálmar fórum svo í stuttan bíltúr um Ölfusið. Keyrðum niður að Arnarbæli og skoðuðum fallega náttúruna í ljósaskiptunum. Hann þekkir þarna hverja þúfu og bæ. Þessi mynd er tekin þar sem Arnarbæliskirkja stóð til 1909. Nú er þar aðeins lítill kirkjugarður sem minnir á að þarna hafi verið kirkja. Við virtum fyrir okkur Arnarbælisforir en þar voru slægjur sem bændurnir á Arnarbælisbæjunum höfðu til nytja. En þarna var nokkur þyrping bændabýla. Það er vel þess viðri að keyra þarna niður eftir. Það opnast nýtt umhverfi og maður fær nýja sýn á Ölfusið og allt það stórfenglega sem það hefur upp á að bjóða.
Hjallakirkja í Ölfusi. Næst lá leiðin í Hjalla í Ölfusi og áðum við hjá Hjallakirkju þar sem þessi mynd er tekin. Þetta er fyrsta steinkirkjan sem er reist fyrir austan fjall úr steini 1928. Sértæð kirkja og gaman að virða hana fyrir sér þótt hún væri lokuð. Að Hjalla var síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, Önundur Pálsson handtekinn 1251. Þetta er sama nafnið og á sóknarkirkjunni minni Hjallakirkju í Kópavogi. Eins og myndin ber með sér var farið að skyggja þegar hér var komið sögu og mál að fara aftur í bæinn. Komum við á einum bæ á leiðinni en þar var enginn heima. Þetta var hin skemmtilegasta óvissuferð með góðum leiðsögumanni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli