fimmtudagur, 11. september 2008

Ferð til Ísafjarðar

Ísafjörður er einn af þessum stöðum á landinu sem afar gaman er að koma til. Þangað er ferð minni heitið á morgun og fram á laugardag. Það hefur ef til vill sitt að segja að ég er alinn upp í því viðhorfi að Ísafjörður við Skötulsfjörð sé merkilegastur bæja á Íslandi. Þar sé í rauninni allt mest og best og fátt sem jafnist á við þetta bæjarfélag. Bærinn á sér merka sögu á flestum sviðum mannlífsins. Hver hefði trúað því að fyrir hundrað árum eða svo hafi verið gufuskipaáætlun um Ísafjarðardjúp og beinar millilandasiglingar milli Kaupmannahafnar og Ísafjarðar. Þetta er eigi að síður staðreynd og segir okkur hvað einstaklingar með framkvæmdavilja og getu eru megnugir ef þeir beita sér. Ásgeirsverslun sem starfaði frá 1851 til 1919 stóð fyrir þessari starfsemi. Menningarlífið var lengi og er enn í miklum blóma. Tónlistarfrömuðir bæjarins á síðustu öld voru meðal annars Jónas Tómasson og Ragnar H Ragnars. Sunnukórinn skipaði sér í fremstu röð íslenskra kóra. Enn er tónlist í hávegum höfð þar vestra. Er ekki Mugison sá frægasti í dag? Ég á engan nákominn ættingja núna á Ísafirði það best ég veit, en föðurfólkið mitt í karllegg er ættað þaðan og frá Aðalvík. Svona má áfram telja, en hér verður látið staðar numið. Kveðja.

Engin ummæli: