sunnudagur, 7. september 2008

Loksins, loksins - ég fékk fisk

Helgi gefur sig ekki. Iðan gaf mér fisk í dag. Að vísu ekki lax en þennan fallega sjóbirting - fínasta matfisk. Ég fór austur í Iðu í morgun með hálfum hug vegna þess hversu leiðinlegt veðrið var og líka vegna þess hvað Iðan hefur verið treg við að gefa mér fisk. Veðrið fram eftir degi var leiðinlegt, rok og rigning en það batnaði eftir því sem leið á daginn. Árangurinn varð eftir því og átta fiskar veiddust mest á maðk og svartan Fransis. Í hádeginu fórum við til Gyðu móður Helga og Magnúsar í hádegismat og fengum lambalæri og fórum svo í heita pottinn hjá þeim áður en við hófum veiðar að nýju.
Sá stóri? Hörður gefur fyrirheit á myndinni að "sá stóri" sé á önglinum. Helgi tókst á við hann af miklum krafti. Þetta reyndist þó ekki vera 15 punda ++ fiskurinn. Þetta var sprettharður sjö punda urriði sem tók svona hressilega í færið. Ingunn var líka með okkur í dag og hressti okkur við með sérlögðu kaffi með flóaðri mjólk milli þess sem hún leysti okkur af á stönginni. Auk áðurnefndra voru með okkur Gunnlaugur Björnsson sem fræddi okkur um stóra hvell í pásunum og faðir hans.

Sjö punda urrði. Stoltur veiðimaðurinn sýnir feng sinn. Glíman við þennan urriða var gríðarlega hörð. Úrslitin tvísýn um tíma en ekki lengi. Laxar, sjóbirtingar og urriðar það er ekki hægt að biðja um meira. Þetta var mjög skemmtilegur veiðidagur og minnti mann á þessa gömlu góðu daga þegar vel aflaðist og allir fengu fisk.

Engin ummæli: