fimmtudagur, 15. október 2015

Áfengisbölið

Líklega hefur mér stafað hvað mest hætta af að leiðast út í  „áfengissollinn“ þegar ég fór fimmtán ára út í Hlíð, þar sem nú er Digraneskirkja, með vinum mínum og þeir grófu þar upp áfengisflösku. Þeir fengu sér gúlsopa þarna í rjóðrinu og urðu hreifir og kátir, en ég lét það eiga sig enda oftast kátur að eðlisfari. Ferðirnar voru nokkrar þetta sumar.

Datt þetta í hug í ljósi þeirrar umræðu sem nú á sér stað varðandi aðgengi unglinga að áfengi. Hvort selja eigi áfram áfengi í ÁTVR eða heimila eigi að selja það í Bónus, Hagkaupum eða Krónunni. Hlustaði á umræðu um þetta á fundi í vikunni þar sem að bindindisfrömuður fór mikinn í ræðustól um nauðsyn þess að vernda æskuna. Þessvegna væri nauðsynlegt að selja áfengi áfram í ÁTVR.

Það var ekkert vandamál að ná í áfengi á þessum árum. Það var hægt að stelast í áfengi foreldranna þar sem því var til að dreifa og fela rýrnunina með vatni. Svo voru auðvitað sprúttsalar á ferð. Þá keyptu sumir foreldrar áfengi fyrir börnin sín. Sögðust ekki getað hugsað þá hugsun til enda ef þau væru einhversstaðar hímandi undir vegg drekkandi ólöglegan landa eða eitthvað enn verra.

Punkturinn er þessi að mínu mati: Það skiptir mestu að foreldrar séu á vaktinni og fylgist með börnum sínum. Það gera það ekki aðrir. Það ræður ekki úrslitum hvort ÁTVR hefur einkasöluna á hendi eða hvort matvöruverslanir fá heimild til að selja áfengi.    

Engin ummæli: