sunnudagur, 25. desember 2005

Jóladagspistill.

Það hafa orðið umskipti í veðrinu. Búið að vera hífandi rok og rigning lengi fram eftir morgni. Það er dimmt í dalnum og byggðin kúrir í myrkrinu. Eins og venjulega var mikið um að vera í gærdag. Ég keyrði Hjört Friðrik í Borgarnesrútuna um hádegið. Vel á minnst þau eru hér heima í jólafríi Ingibjörg, hann og Sveinn Hjörtur. Með okkur hér í gærkvöldi voru Hilda og Magnús, Björn og Sunna og síðar um kvöldið komu Valdimar og Stella auk okkar þriggja sem erum heimilisföst. Við borðuðum gæs að hætti Björns, velling og jólaísinn sem er eftir uppskrift Jensínu ömmu. Eftir opnun pakka og kaffi fór fólk að tygja sig til síns heima, en við skelltum okkur í síðbúna kvöldheimsókn til Þórunnar systur og Svenna mágs. Þar hittum við prestshjónin og frændur og frænkur. Þetta er nú svona það helsta á þessum jóladagsmorgni. Boðskapur jólanna seitlar inn í sálartetrið og nærir hug og hjarta. Enn á ný er jólahátíð og svo flýgur tíminn áfram. Áður en við vitum komin áramót. Á myndinni má sjá þreytt jólabarnið okkar með pabba sínum. Kveðja.

Engin ummæli: