laugardagur, 2. ágúst 2008

Túristi í Reykjavík

Fórum í bæinn í morgun og gengum frá Landakotstúninu krókaleiðir niður í miðbæ. Skoðuðum Landakotskirkju sem við höfum aldrei áður gert almennilega. Gengum eftir Hávallagötu, Sólvallagötu niður að gömlu Pétursbúð sem heitir nú eitthvað annað. Ánægjulegt að enn skuli finnast kaupmenn á horninu. Keyptum smotterí til að búa okkur erindi til að koma inn í búðina. Hann var að vísu ekki í hvítum slopp eins og í gamla daga kaupmaðurinn. Annars tengi ég þessa búð í minningunni við appelsínur sem skalaðar voru að hluta og svo settir sykurmolar í endan á þeim. Þetta saug maður af mikilli áfergju sem krakki í heimsókn hjá afa og ömmu á Hringbraut 52. Hann tók því ljúfmannlega kaupmaðurinn þótt við kíktum í nýjasta tekjublaðið án þess að kaupa það meðan við biðum eftir afgreiðslu. Við fengum meira að segja ágætan fyrirlestur um fyrirhyggjuleysi athafnamanna og bankamanna og hve gæfan getur verið fallvölt í fjármálum - menn ættu að sníða sér stakk eftir vexti. Það eru tveir gamlir skólabræður mínir sem hafa af því atvinnu að gefa út þetta hnýsniblað og einhverra hluta vegna hafa þeir séð ástæðu til þess að birta launin mín þarna í áratugi án leyfis. Síðan gengum við út Sólvallagötuna og í gegnum gamla kirkjugarðinn. Sum starfseiti á legsteinum eru ekki tíð í dag t.d. söðlasmiður. Það er eins með legsteinana og launin í hnýsniblaðinu að þeir eru æði misjafnir. Enginn þarf þó meira pláss í garðinum en sem nemur 6x2 fetum eða jafnvel minna að lokum. Við gengum niður Tjarnargötuna og í gegnum Ráðhúsið. Þar stóð yfir fyrirlestur á hollensku við landakortið. Næst lág leiðin í alþingisgarðinn þar sem utangarðsmaður var að pissa á blómin. Eftir stutta heimsókn í Kolaportið komum við við í versluninni þar sem Björn Krisjánsson var lengi á Vesturgötunni. Fengum þar að sjá 100 ára gamla verðskrá yfir vefnaðarvörur og ýmislegt smálegt sem varð eftir þegar listakonurnar tóku húsnæðið yfir fyrir 15 árum. Kveðja.

Engin ummæli: