sunnudagur, 24. ágúst 2008

Viðburðarrík helgi.

Helgi heldur tölu. Það stóð til að fara í hina árlegu Strandarkirkjugöngu afkomenda Helga Ingvarssonar. Því miður setti veðrið strik í reikninginn og við urðum að hætta við. Helgi vinur ásamt vinum sínum Ástríði og Gunnlaugi höfðu hafið gönguna fyrr um morguninn í Heiðmörk og má því segja að gangan hafi verið byrjuð, en við hin ætluðum að slást í hópinn á Bláfjallaveginum. Haldið var eigi að síður í bílum að Strandarkirkju og þar hélt Helgi tölu um upphaf þessarar göngu, sem afi hans Helgi Ingvarsson yfirlæknir á Vífilstöðum hóf upp úr 1950. Síðar tók faðir hans Sigurður Helgason sýslumaður við merkinu og hélt þessum göngum áfram og nú hafa afkomendur hans haldið á kyndlinum í áratug. Helgi Sigurðsson gekk sína fyrstu göngu 1960. Þess var minnst í kirkjunni að tíu ár eru síðan Sigurður lést. Helgi kom víða við í máli sínu. Hann skýrði m.a. tilgang göngunnar og rakti hvað vakti fyrir afa sínum. Hann sagði frá kirkjunni og sögu hennar og af hverju menn færu í píslargöngur þ.e. er að erfiða líkamlega, hreinsa hugann og setja sér háleit markmið. Að lokum sagði hann frá Þóri haustmyrkva sem nam mikið land á Reykjanesi meðal annars það land sem Strandarkirkja stendur. Ennfremur frá dætrum hans tveimur Herdísi og Krísu og eftir þeim eru landsvæðin kennd þ.e. Krisuvík og Herdísarvík. Hann greindi frá því að kirkjan væri helguð Maríu mey og væri eina kirkjan í lúterskum sið hér á landi sem gæti státað af Maríulíkneski. Blái liturinn í kórnum væri einnig litur hennar.
,,Strákarnir okkar" Til hamingju með silfrið í Kína. Frammistaða þeirra á vellinum og viðtölin við þá milli leikja hefur verið uppbyggileg upplifun sem aldrei gleymist. Þjóð sem á skipa þvílíkum afreksmönnum getur borðið höfuðið hátt. Hér var skráð í silfur mikilvægur áfangi í íslenskri íþróttasögu.
"Lame dudes" Að venju tókum við þátt í ýmsu af því sem menningarnótt Reykjavíkur hafði upp á að bjóða. Við vorum mætt á tónleika í þessari skóbúð þar sem Hannes hennar Tátu og Snorri frændi voru í aðalhlutverkum. Þeir kalla sig Lame dudes eða Slappa kappa á íslensku og fluttu þeir m.a. nokkur blueslög meðan við stoppuðum við.
Gjörningur. Við gegnum upp og niður Skólavörðustíginn sem er nýendurgerður að hluta. Þar gat að líta þennan þvottavélagjörning. Auk þess röltum við um miðbæinn og enduðum hjá Hallgrímskirkju þegar flott flugeldasýningin hófst upp úr ellefu um kvöldið. Þetta er það helsta. Kveðja.

Engin ummæli: