miðvikudagur, 30. nóvember 2005

Nýtt samskiptaform.


Ég talaði í fyrsta skipti í dag í gegnum tölvuna mína með aðstoð SKYPE forritsins. Talaði klukkutíma við Hjört Friðrik í Svíþjóð. Þessar nýju samskiptaleiðir eru ótrúlegar. Fyrst var það MSN, Hotmail, Blogg og núna SKYPE. MSNið hefur það fram yfir SKYPE að þú getur talað í gegnum það og þú getur horft á viðmælandann í vídeó. Það er mikilvægt þegar hægt er að sjá litla barnabarnið þitt í beinni. Er ekki framtíðin sú að þetta fer allt í gegnum sjónavarpsrás áður en yfir líkur? Það kæmi mér ekki á óvart. Þetta er mikil breyting frá því þegar við bjuggum út í Svíþjóð fyrir þrjátíu árum og samskiptin heim voru í gegnum póstinn með bréfum sem tóku um viku að berast í milli. Það er bara ekki lengra síðan. Einstaka sinnum var hringt frá Íslandi. Þá urðum við svo hrædd að hjartað tók kipp. Það var nefnilega ekki hringt nema verið væri að tilkynna manni alvarlegar fréttir. Þessar tækninýjungar eru lykilatriði í alþjóðavæðingunni vegna þess að þær tengja fólk með auðveldum og ódýrum hætti og skapa nýjar forsendur til samstarfs. Enn eru samt hamlandi þættir sem þarf að leysa svo sem á fjarlægari stöðum eins og á hafi úti er dýrt að hafa samband í gegnum gervihnattarsíma, en það á eftir að verða ódýrara. Bloggið er sérstakt form samskipta. Það er opið og í formi dagbókar á opnu torgi sem gefur lesendum ákveðin prófíl af bloggaranum þ.e. ef maður vill leyfa það. Ég veit svo sem ekki hvað ég nenni þessu bloggi mikið lengur. Ég verð þó að viðurkenna það að þetta er svolítið gaman að halda svona dagbók. Gagnsemin er sú að fjölskyldan, vinir og forvitnir sem eru ekki í daglegu sambandi hefur tækifæri til þess að fylgjast með manni. Það sést á "kommentum" og viðbrögðum þegar við hittumst. Maður þarf ekki að rifja upp það helsta sem á daga manns hefur drifið. Við sjáum til. Kveðja.

Engin ummæli: