mánudagur, 5. október 2009

Umræða kennd við eldhús.

Ríkistjórnin ætlar að... og stjórnarandstaðan vill og gagnrýnir. Skuldakreppa. Hækka skatta, lækka skatta, skera niður, byggja upp, taka lán, borga lán, hækka vexti, lækka vexti, hækka gengi, lækka gengi æ maður hefur heyrt þetta allt svo oft áður. Um þetta fjalla stjórnmálamennirnir á meðan þessar línur eru skrifaðar. Huggar þetta þjóðina, sem er döpur, sár, reið og svikin? Það held ég varla því ástandið er illt og margir eiga um sárt að binda. Fjármálin í rúst, húsnæðið yfirskuldsett, bílinn með myntkörfulán sem tvöfaldaðist, hlutabréfasparnaðurinn tapaður og atvinnuleysi framundan. Sárreiðust erum við mörg yfir því að hafa talið að íslenska útrásin væri byggð á traustum grunni. Þetta væri alvöru uppbygging með íslensku hugviti og fjármagni. Blekkingin er sárust - hún lék á skynsemina, gerði það að verkum að tálsýnin varð staðreyndum yfirsterkari. Engin leið er að sjá til lands því skuldahraukurinn byrgir sýn og enginn veit hversu hár hann er. Mestu skiptir þó að standa vörð um fólkið það þarf að byggja og styrkja þjóðarsálina að nýju þannig að hún sé tilbúin að takast á við þennan gríðarlega vanda - byggja upp að nýju. Hver ætlar að leiða okkur af stað, telja í okkur kjarkinn - trúnna og vonina um nýtt og betra Ísland.

Engin ummæli: