miðvikudagur, 21. október 2009

Melvyn King um bresku fjármálakrísuna.

Melvyn King "Never has so much money been owed by so few to so many. And, one might add, so far with little real reform." Í íslenskri þýðingu: Aldrei áður hafa svo fáir skuldað jafn mörgum mikið fé og án áþreifanlegrar endurbóta til þessa. Hér var breski seðlabankastjórinn að umorða og vísa í fleyg ummæli Winstons Churchills í seinni heimstyrjöldinni, þegar hann bar lof á framgöngu breskra flugmanna í orustunni um Bretland. Frekar ósmekkleg samlíking, en væntanlega dæmi um breskan húmor. Stuðningur breskra skattgreiðenda í formi beinna og óbeinna styrkja og hlutabréfakaupa í bönkum nemur 1.000 milljörðum punda (Ein billjón punda). Þetta er stór tala og í íslenskum krónum er þetta 200 000 000 000 000.- (um 3,3 milljónir króna á hvert mannsbarn í Bretlandi en þeir eru um 61 milljón talsins núna.) Þessi staða segir okkur að það er víðar en hér á landi sem bankar lentu í erfiðleikum og þroti. Í raun þolir enginn banki áhlaup og þess vegna eru Seðlabankar til þess að útvega lausafé við slíkar aðstæður. Vandamál okkar er að bankakerfið óx okkur yfir höfuð. Seðlabankinn hafði enga burði til þess að styðja við bankakerfið eins og til er ætlast. Það skiptir engu máli hvort vinstri eða hægri menn eru við völd þegar bankakrísur verða. Í Bretlandi voru/eru vinstri menn við völd. Hér var samsteypustjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Nú eru vinstri menn við völd og það er enginn trygging fyrir því að ný bankakrísa skelli ekki á aftur. Þvert á móti verðum við að átta okkur á því að viðspyrna okkar við þessar aðstæður felst í getu okkar til þess að efla íslenskt efnahagslíf. Við þurfum að efla atvinnustarfsemi okkar með ráð og dáð til þess að geta greitt skuldir okkar í framtíðinni. Melvyn King telur að það muni taka eina kynslóð í Bretlandi að komast í gegnum þessa erfiðleika. Vafalaust mun taka okkur langan tíma að laga okkar stöðu. Hvort það verða tíu eða tuttugu ár veltur á því hvernig okkur tekst að efla íslenskt efnahagslíf. Bjartsýni, áræðni, skynsemi eru lykilhugtök á þeirri vegferð. Nóg í bili...

Engin ummæli: