fimmtudagur, 8. október 2009

Í eldhúsinu með Rick Stein á BBC Food.

Rick Stein Næstur Nigellu Lawson fallegasta og flottasta matreiðslumeistaranum á BBC Food er matreiðslumeistarinn Rick Stein í miklu uppáhaldi hjá mér. Nú undanfarnar vikur er hann búinn að fjalla um matreiðslu á fiski í nokkrum þáttum. Það sem gleður í þessari umfjöllun Rick Steins er að hann hefur í þremur þáttum fjallað um ágæti þorsksins og matreiðslu hans. Hann minnist jafan á Ísland þegar hann talar um gæða þorsk. Hann er búinn að m.a. matreiða ferskan þorsk í Breltandi og saltaðan þorsk í Katalóníu á Spáni og útskýra af hverju Suður-Evrópubúar vilja saltaðan þorsk en Bretar frekar ferskan. Þá hefur hann útnefnt þorskrétti í fremstu röð meðal uppáhaldsrétta sinna. Þetta er gríðarlega mikilvæg umfjöllun fyrir okkur vegna þess að hún eykur orðspor okkar sem fiskveiðiþjóðar og hjálpar okkur að selja fiskinn. Það veit sá sem allt veit að við þurfum að selja fisk og fá fyrir hann gott verð. Þessi umfjöllun um íslenska fiskinn í BBC Food hjálpar okkur mikið í þeirri viðleitni. Um fjörtíu prósent af útflutningsverðmæti fiskafurða er fyrir þorsk.
Jóhanna Sigurðardóttir. Svo birtist þessi kona líka í kvöld á BBC News og var að útskýra stöðu mála fyrir Bretum. Satt best að segja situr lítið eftir af þeirri umfjöllun. Eitthvað var talað um ESB, mikið af skuldum og atvinnuleysi. Rick Stein dró upp í umfjöllun sinni um íslenska þorskinn mun jákvæðari og áhrifaríkari mynd af okkur Íslendingum: Fólk sem enn getur boðið upp á úrvals þorsk af bestu gæðum. Áform ríkisstjórnar Jóhönnu í sjávarútvegsmálum eru að rústa efnahag greinarinnar og því stjórnkerfi sem hér hefur verið byggt upp við erfiðar aðstæður undanfarna áratugi til að koma á sjálfbærum veiðum úr fiskistofnunum. Eins gott að Rick Stein frétti það ekki. Það er ekki víst að hann mæri íslenska fiskinn í framhaldinu því hann hefur miklar áhyggjur af ofveiði fisks víða um höf. En Jóhanna hefur ekki áhyggjur af því þótt sú lífæð hrynji, allvega ef eitthvað er að marka stefnuskrá hennar.

Engin ummæli: