laugardagur, 11. júlí 2009

Nammi namm

Prinsessan Einu sinni var ég svangur í Oxford á Englandi og ákvað að fylgja straumi unga fólksins inn á ósjálega knæpu þar sem hægt var að fá sér í svanginn. Þarna fékk ég ágætis skyndibita fyrir lítinn pening. Síðan hefur viðkvæði mitt verið. Ef þú vilt góðan og ódýran mat skaltu fylgjast með því hvert unga fólkið fer. Í Mölndal keypti ég rauðvínsflösku í síðustu viku. Framboðið var mikið og ég vissi ekki hvað kaupa skildi. Inn í búðina kemur þá öldruð kona og gengur rakleitt að ákveðnum rekka og tekur þar rauðvínsflösku. Ég hugsaði með mér að svona gangi enginn til verks nema sá einn sem veit hvað hann vill. Ég ákvað að fylgja dæmi konunnar og keypti sömu tegund og hún. Viti menn þetta var afbragðs ítalskt rauðvín og eitt af því allra ódýrasta í búðinni. Ný kenning hefur nú litið dagsins ljós. Ef þú veist ekki hvernig rauðvín þú átt að kaupa, fylgstu þá með því hvað rosknu konurnar í búðinni gera. Eitt af því allra besta sem ég fæ í Svíþjóð eru svokallaðar Prinsessu tertur. Já, þessar fylltu með gómsætu rjóma vanaillu fyllingunni hjúpuð grænu marsipani. Þær fást um alla Svíþjóð. Ef til vill hefur einhver sem fylgst hefur með mér kaupa þessa tertur búið til kenningu. Ef þú veist ekki hvaða kökusneið þú átt að fá þér skaltu fylgjast með því hvað miðaldra karlar gera. Keyptu þér Prinsessu kökur þær bregðast ekki. Annars höfum við í dag eytt deginum í að rápa með Svíunum á laugardagsmörkuðum hér um kring, með ferskvöru, fötum, dóti og ýmsu öðru. Þetta virðist vera mjög vinsæl laugardagsiðja.

Engin ummæli: