miðvikudagur, 8. júlí 2009

Jkg - Gbg - Jkg.

Gunnebogarðurinn Auðvitað fórum við til Gautaborgar í dag. Veðrið var hið besta til ferða rúmlega 20°C hiti og sólbjartur dagur. Við lögðum bílnum við Heden sem er rétt hjá Avenyn. Fórum á Avenyn og borðuðum þar í hádeginu á ágætis Brarrseríu. Síðan ráfuðum við um miðbæinn í mannþrönginni. Næst lá leiðin um í Johanneberg á fornar slóðir þar sem við bjuggum og svo inn í Möndal þar sem við stoppuðum í miðbænum. Fundum þar ýmislegt frá gömlum tíma sem við höfðum gaman af. Enduðum á því að keyra upp að Gunnebohöll og skoða okkur þar um. Þetta er falleg sveitahöll frá 18. öld sem nú er friðuð ásamt nánasta umhverfi. Reist af ríkum Gautaborgara John Hall. Saga Gautaborgar er samofin ýmsum skoskum kaupahéðnum og ævintýramönnum. Við höllina er bæði listigarður og svo er mikill eikarskógur ásamt ýmsum öðrum gróðurreitum. Lögðum að stað til Jönköping um klukkan sex og vorum komin hingað fyrir átta. Þetta er svona það helsta af afrekum dagsins. Af ESB fundinum hef ég bara ekkert frétt í dag. Lögreglan er hér út um allt og við öllu búin. Helst að félagsmálaráðherrann sænski er frá Jönköping og er borið á hann lof í héraðsfréttablöðum fyrir að hafa "reddað" fundinum í heimabyggð. Stjórnmál breytast ekki. Annars er undirliggjandi óri í Svíþjóð yfir efnahagsmálum og svínaflensku. Fréttir af erfiðleikum fyrirtækja og niðurskurði í heilbrigðisþjónustu er aðalþema fréttanna. En kjaftablöðin velja að velta sér upp úr andláti M. Jackssonar. Svíar eru yndisleg þjóð og þeir bara batna með árunum. Í ár eru þrjátíu ár nákvæmlega síðan við lukum námi og héldum heim eftir fjögurra ára dvöl í Gautaborg. Upp á það var haldið í dag. Verum glöð. Kveðja.

Engin ummæli: