mánudagur, 25. janúar 2010

Líf og dauði - tilvistarspeki Sigurðar Nordals

Ég las fyrir nokkrum árum bók Sigurðar Nordals, Líf og dauði. Hún fjallar um tilveru okkar í lífsins ólgusjó. Efni bókarinnar er í grunninn fyrirlestar um tilvist mannsins, sem hann hélt í útvarpið á stríðsárunum. Þetta voru viðsjárverðir tímar og hann speglaði lífshlaup okkar á þeim óvissutímum og tiltók ýmis gildi sem hann taldi skipta máli í daglegu lífi. Bókin byggir á kristilegum gildum og heimspeki exsistentialista/tilvistarspekinga. Það skyldi ég síðar þegar ég fór að kynna mér þá heimspekistefnu aðeins nánar. Sigurður segir einhvers staðar í bókinni að enginn hoppi hærra en hann hugsi. Hann tiltekur að meðfram og við hliðana á daglegum störfum geti fólk skapað sér athvarf þar sem það getur aflað sér þekkingar og þroskað ýmsa hæfileika sína. Þessi bók hefur verið mér hugstæð í nokkur ár og ég hef oft hugleitt þessi heilræði Sigurðar. Margir eru reiðir þessa dagana yfir því hvernig er komið fyrir okkur í efnahagsmálum. Þetta eru aðstæður sem við ráðum litlu eða engu um hvernig fram vindur. Það skiptir okkur því miklu máli að ná því stigi að geta lifað í góðri sátt við umhverfi okkar. Umrædd bók er góð lesning til þess að takast á við lífsins ólgusjó og finna farveg fyrir líf okkar. Mæli hiklaust með henni. Kveðja.

Engin ummæli: