laugardagur, 9. janúar 2010

Víkingur Heiðar og Ran Dank - Tveir flyglar.

Við fórum í Salinn í dag með Helga og Ingunni að hlusta á ungu píanósnillingana þá Víking Heiðar og Ran Dank spila tvíhent á flygil eða á tvo flygla eftir atvikum. Hvílíkir listamenn, ég á varla orð. Ég held ég hafi sjaldan eða aldrei upplifað það að tónlistin hrifi mig svona alfarið á vald sitt. Hún átti hug minn allan þessa tvo tíma. Það fékk ekkert annað truflað mig á meðan á flutningi verkanna stóð. Hver perlan, hvert meistarastykkið rak annað. Það byrjaði rólega með innhverfum kontrapunkti eftir Bach. Það hýrnaði yfir með sónötu eftir Mozart, sem hann samdi sextán ára til að hrífa ungar stúlkur. Síðan kom verk eftir Claude Debussy með spænsku ívafi og að lokum yfirhlaðinn vals eftirt Ravel. Eftir hlé komu Paganíní tilbrigði efitr Lutoslawski og fallegu þjóðlagastefin eftir Snorra Sigfús Birgisson. Við lágum flöt eftir flutning á Libertangó eftir Piazzollo og að lokum kom forleikurinn úr Leðurblökunnni eftir Strauss. Strákarnir fóru á kostum á flyglunum, voru eins og heil hljómsveit. Hvernig er þetta hægt? Tveir strákar á þrítugsaldri tóku okkur í ferðalag um marga unaðsreiti tónlistarinnar og kennslustund í leiðinni. Takk,takk, takk.

Engin ummæli: