laugardagur, 22. október 2005

Rússnesk mennngarvika og Hansadagar.

Þetta er búinn að vera dagur hinna mörgu fróðleiksmola svo ekki sé meira sagt. Ég byrjaði daginn á því að fara í Salinn í Kópavogi á ráðstefnu sem bar yfirskriftina Rússland og ég. Þar voru mættir fræðimenn íslenskir til þess að fjalla um Rússland frá ýmsum sjónarhornum. Fyrst talaði guðfræðingur um rússneska íkona. Þá fjallaði bókmenntafræðingur um rússneskar bókmenntir, þýðandi um þýðingar úr rússneskum verkum á íslenska tungu, hagfræðingur, Guðmundur Ólafsson, um rússneska sögu og ferðaskrifstofueigandi um ferðir til Rússlands. Allt voru þetta þakkarverð erindi. Það sló mig að hagfræðingurinn sagðist hafa verið búinn eða langt kominn með erindi um rússnesk efnahagsmál, en svo hafi honum þótt það svo leiðinlegt að hann hafi hent því. Í staðinn skautaði hann á nokkrum stórmennum og skálkum rússneskrar sögu allt frá Pétri mikla (myndin hér til hliðar er af honum) til vorra daga og gat þess að það væri ekkert gaman að fjalla um Rússland nema það væru 300 ár undir. Það kom strax í ljós þegar panelumræður hófust að fólk vildi fræðast um stöðu mála og ekki hvað síst stöðu efnahagsmála í Rússlandi í dag. Hvert landið stefndi undir stjórn Pútins, hvort landið væri að ná tökum á sínum málum eftir sovétáratugina skelfilegu, hvort takast mætti að laga þann félagslega og efnahagaslega mismun sem væri í landinu. Af hverju væri svona erfitt að ferðast til Rússlands. Þarna var af hinum almenna þátttakenda á ráðstefnunni komið inn á þá mynd sem blasir við almenningi hér á landi og væntanlega víðar. Í raun var frekar fátt um svör. Vandræði Rússa eru skelfileg og segir það kannski mest um þau að þeim fækkar um 1 milljón manns á ári um 300 þúsund manns deyja árlega af voveiflegum ástæðum þar af 150 þúsund manns af eitrun alkóhóls og vímuefna. Spurning hvort að það standist söguskoðun að umskiptin frá kommunismanum hafi verið án blóðsúthellinga í ljósi þessa. Hagfræðingurinn reyndi að hughreysta áheyrendur með því að vitna í Bismark sem forðum sagði að Rússar væru jafnan seinir til en þegar þeir loks mættu til leiks stoppaði þá ekkert af. Saga Rússlands er að mínu mati dæmi um hvernig þjóðir, já alþýða manna getur verið ofurseld ribböldum sem fara sýnu fram án þess að skeyta nokkru um samferðamenn sína. Þetta á ekkert bara við Rússa. Þetta er því miður saga mannkynsins allt of oft í stóru og smáu í gegnum aldirnar. Þegar ég var búinn að velta þessu fyrir mér fram að hádegi heyrði ég í útvarpinu að kl. 14.00 yrði flutt erindi í Minjasafni Hafnafjarðar um Hansa kaupmenn og Hafnarfjörð. Ég skelti mér þangað og hlustaði á það erindi sem flutt var af mínum gamla sögukennara í gaggó Aust, Gísla Gunnarssyni. Það var fróðlegt erindi um íslenska sögu og tengingu hennar við Hamborg og þýska fiskkaupmenn í gegnum aldirnar. Í þessu erindi fékk maður m.a. nasasjón af því hvernig verslunarveldi verða til og hvernig endalok þeirra verða. Það gildir hið sama um bæði Sóvétríkin og Hansaveldið að þau féllu að lokum innanfrá. Í lok erindis síns kom Gísli inn á það að stríð og viðskipti færu illa saman. Mér finnst það svolítil þversögn í ljósi sögunnar. Já, en ætli það sé ekki eitthvað til í þessu ef grannt er skoðað. Ef einhver vill vera "nastí" þá gæti hann sagt sem svo að Sveinn hafi verið í tímum hjá gömlum allaböllum í dag. Læt hér staðar numið í bili. Kveðja.

Engin ummæli: