sunnudagur, 23. október 2005

Í fýl með Skaftfellingum.


Ég fór í fýlaveislu hjá Skaftfellingafélaginu í gærkvöldi. Þarna voru samankomin um 150 manns til þessarar veislu. Fyrir þá sem ekki vita það þá er fýllinn sjófugl og verpir hann hér við suðurströndina. Þegar ungarnir eru fullvaxnir eru þeir veiddir til matar. Þá eru þeir oft svo feitir, og svifaseinir og geta ekki flogið. Það er löng hefð fyrir fýlsáti meðal Skaftfellinga. Fýlinn í gær var saltaður og borinn fram með rófum og kartöflum. Þetta er ágætis matur en svolítið sérstakur minnir á vel saltað kindakjöt. Það verður seint settur upp skyndibitastaður sem býður fýl. Lyktin er mjög sérstök, svona lýsiskeimur. Fólkið sem þarna var saman komið var flest af eldri kynslóðinni, þó var þarna eitthvað af yngra fólki. Nokkrir kórfélagar voru mættir og var þetta hin besta skemmtun. Skúli Oddsson formaður félagsins var ánægður með mætinguna og gat þess að ýmsir formenn átthagafélaga teldu að tími þeirra væri að líða undir lok. Það gæti ekki átt við um þetta félag í ljósi þátttökunnar. Ég þekkti nokkra þarna fyrir utan kórfélaga, svo sem Hjört og Vigdísi frá Herjólfsstöðum, Einar Finnbogason og Deddí konu hans sem leigðu hjá okkur í Víðihvamminum á sínum tíma. Pálma Magnússon bróður Guðlaugar Magnúsdóttur kórfélaga og Gautaborgara. Ég gleymdi að geta þess að ég hitti annan Gautaborgara í gær á Rússa ráðstefnunni. Það var hún Ester Magnúsdóttir. Þá hitti ég líka gamlan leikfélaga á Hansadögum úr Hvömmunum, Björgvin Vilhjálmsson son Villa múrara. Við fengum okkur kaffibolla saman og áttum létt spjall um æskudagana. Hann er sögugrúsakari eins og ég. Jæja nú er ég að fara til Laugu og Sigga í heimsókn.

Engin ummæli: