miðvikudagur, 25. janúar 2006

Að hætta reykingum.


Eitt af því versta sem ég hef tekið upp á í lífinu eru reykingar tóbaks. Ég hef verið 16 ára þegar ég fór að fikta við þetta. Varð tiltölulega fljótt alvöru reykingarmaður. Mér tókst að hætta í fyrsta skipti þegar ég var liðlega tvítugur eftir að hafa reykt í 6 ár. Ég þoldi illa að vera háður reykingum. Nú ég hóf svo reykingar aftur um þrítugt og reykti í nokkurn tíma, hætti byrjaði aftur og hætti svo aftur. Nú hef ég ekki reykt í 8 ár og verða að segja það að ég sakna þess alls ekki. Reykingar eru náttúrulega ekkert annað en eiturlyfjafíkn og reykingafíklar verða alltaf að vera á verði gagnvart þessu sterka eiturefni. Ég notaði þá aðferð þegar ég hætti að reykja að hætta seinni partinn á föstudegi. Síðan fór ég snemma að sofa þann daginn og lág í rúminu fram eftir laugardeginum til þess að ná fyrsta sólarhringnum reykfríum. Þegar ég var búinn að ná fyrsta sólarhringnum reykfríum fannst mér auðveldara að reyna við næsta dag og helgarnar voru bestar til þess að rjúfa vítahring reykinganna þegar maður gat haft hægar um sig. Eftir fyrstu tvær vikurnar varð tilveran auðveldari og það fóru að líða dagar sem maður gleymdi sér og fíknin minnkaði. Í hvert skipti sem ég hef hætt að reykja hefur það kostað ca. 10 auka kíló. En það er að mínu mati betri lífsgæði að drattast með þau en að vera háður tóbakinu. Nú er ég að reyna að fækka kílóunum. Það er stöðug barátta og gengur því miður hægar en ég hefði kosið. Ég held líka að maður verði að fara hægt í það verkefni því að annars er hætta á því að maður gefist upp. Þessi aðferð mín sem ég hef hér lýst gengur ekki ef maður er ekki tilbúinn í alvöru að drepa í og hætta.Hún er aðeins hjálpartæki meðan maður er að minnka eitrið og fíknina. Eiturfíknin með tilheyrandi doða varaði í 10 daga fyrsta skiptið sem ég hætti. Hreint ótrúlega óþægileg lífsreynsla. Jæja læt þessari reynslusögu lokið. Kveðja.

Engin ummæli: