miðvikudagur, 13. maí 2015

Eins og mynd í sandi

Hugleikin er sandmyndin sem búddamunkarnir frá Tibet teikna af mikilli natni í öllum regnbogans litum. Þegar verkinu er lokið sópa þeir sandinum saman og á næstu hátíð er teiknuð ný mynd og hún hlýtur sömu örlög. Man þegar ég sá þetta í fyrsta sinn og þótti þetta miður að eyðileggja svona fallegt verk. Auðvitað hefur þessi mynd og svo eyðing hennar ákveðinn tilgang. Ekkert mannanna verk varir að eilífu. Allt er í heiminum hverfult og svo framvegis.
Þessi minnig rifjaðist upp eftir frábæra tónleika Söngfélags Skaftfellinga um síðustu helgi. Við söngfélagarnir æfðum fjölda laga í allan vetur til þess að syngja á vortónleikum okkar. Þar með er lokamarkmiðinu náð. Eftir tónleikana lifir minningin ein og við bíðum þess að geta hafið æfingu á nýju lagavali næsta haust til þess að flytja á enn nýjum tónleikum. Tilgangurinn er að geta sungið fallegt ljóð og nært fegurðina eitt augnablik og veitt hana öðrum. 
Við eigum stundina, er viðkvæði sem við erum reglulega minnt á. Við höldum áfram okkar daglega lífi og á vegferð okkar verður fólk sem við eigum samleið með um lengri eða skemmri veg. Hver er svo tilgangurinn með þessu öllu. Svo aftur sé leitað í skjóðu Dalai Lama er hann einfaldlega að vera hamingjusamur. 
Hamingjan er hugarástand sem hver og einn verður að skilgreina fyrir sig. Hún er ekki ákveðin formúla eða skyndibiti. Hver og einn verður að öðlast hana eftir eigin forskrift og vinna að því að öðlast hana. Þetta eru nú sérdeilis hreinskiptin skilaboð og ekki víst að öllum líki. Samt erum við öll hugsandi verur að feta okkur fram í lífinu og spyrjandi þessara grundvallar spurninga um lífið og tilveruna, eins og þessarar.
 Sumir segja að lífið sé frá upphafi til enda háð eintómum tilviljunum. Aðrir telja að lífshlaupinu sé meira og minna stýrt. Hvað er rétt í þessum efnum? Ég veit það ekki, en við eigum væntnlega öll sameiginlegan þennan  efa um tilgang lífsins og tilveruna. Sagði ekki Kristur sjálfur á krossinum:  "Elí, Elí, lama sabaktaní!" Það þýðir: "Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?" Þess vegna verðum við að trúa því okkur er ekki gefin vissan. Þetta átti nú aðeins að vera örstutt hugvekja um gildi söngsins en varð óvart hugvekja um tilgang lífsins enda uppstigningardagur á morgun. Það er gott að vita til þess að vakað er yfir okkur á himnum. Góða helgi.

Engin ummæli: