föstudagur, 15. maí 2015

Hvað er list?

Hvað er list? Einn leiðinda vetrardag fyrir rúmum 40 árum tóku nokkrir skólapiltar sig til og settu snjókúlu ofan á flúrosentlampa til þess að sjá viðbrögð kennarans þegar snjórinn byrjaði að bráðna. Það stóð ekki á þeim. Hann kipptist við í hvert skipti sem dropi datt á höfuð hans. Þetta endaði svo á því að nokkrir bættu um betur og hentu litlum sígarettu púðurkerlingum að honum. Aumingjans maðurinn sem var að auki spastískur "dansaði" fyrir framan töfluna þar til hann áttaði sig og rauk á dyr. Var þetta listagjörningur? Varla, en við þjónuðum lund okkar. Hann kom ekki meira þann veturinn. Í næsta tíma kom Guðni Guðmundsson rektor MR í heimsókn. Hann heilsaði okkur skólapiltum með eftirfarandi ávarpi: "Ég hef lengi ætlað að koma hingað til þess að sjá öll þau fífl sem hér eru saman komin."
Síðan hófst lesturinn og hann var langur og strangur. Eftir situr að við brutum á kennaranum og höfum líklega flestir borið þessa skömm síðan. Ég er viss um að við hefðum líklega allir verið reknir úr skóla ef ekki hefði verið fyrir umsjónakennarann okkar. Þessi minning kom upp í hugann þegar ég heyrði mann sem nefnist Goddur lýsa því yfir að mosku framlag Íslendinga í Feneyjum væri verðugt framlag okkar á þessari listasýningu. Nú leikur mér forvitni á að vita hver ber ábyrgð á þessu Feneyjarmáli?

Engin ummæli: