laugardagur, 22. ágúst 2009

Menningarnótt

Hljómskálagarðurinn. Við fórum í bæinn í kvöld til þess að njóta menningarnætur ásamt tugþúsundum annarra. Fórum víða um og skoðuðum margt. Vorum á Óðinsstorgi og hlustuðum á rímnasöng og drukkum kakó til styrktar Grensásdeild. Fórum á stórtónleikana í Hljómskálagarðinum um kvöldið. Hlustuðum á óperusöng í Dómkirkjunni, hlýddum á stórband í Ráðhúsinu undir stjórn Vignis Þórs Stefánssonar svona til að nefna eitthvað. Þetta mun vera í fjórtánda sinn sem menningarnótt í Reykjavík er haldin eða menningardagur eins og sumir vilja kalla þennan viðburð. Augljóslega hefur margt breyst í ásýnd menningarnætur þessi ár. Í fyrsta skipti sem við tókum þátt í þessari hátið var upplifunin sterkari. Í minningunni er mynd þar sem við vorum á rölti um Þingholtin til þess að skoða gamlan steinbæ og vinnustofu listamanna. Það var þó nokkuð fólk á ferðinni en ekki í jafnmiklu mæli og í gær. Þetta var ekki jafn yfirþyrmandi eins og hátíðin er orðin núna. Þetta er orðinn stórviðburður, massahátíð með breiðsenu og útþvældum slögurum eins og í Hljómskálagarðinum í gær. Eitt "giggið" enn eins og tónlistarmenn mundi segja. Þar sem vel slípaður og greiddur Páll Óskar skemmtir fjöldanum - tugþúsundum ásamt minni spámönnum (undanskil að sjálfsögðu Egil Ólafsson), sem hita upp fyrir hann. Mikill fjöldi fólks gengur um með bjórdósir og er kenndur, sem mér finnst draga úr herlegheitunum. Ef til vill er kominn tími til þess að brjóta þennan dag upp. Jafnvel dreifa atburðum um höfuðborgarsvæðið og leggja minna upp úr breiðsenu tónleikum en draga fram hið sérstaka, smáa og einstaka. Þessir síbylju slagarar er nú meira í ætt við iðnaðar- og fjöldaframleiðslu en menningu eins og ég legg upp úr því hugtaki. Kveðja.

Engin ummæli: