fimmtudagur, 6. ágúst 2009

Frændur á fjarlægum slóðum.

Það eru nú fimm ár síðan við tókum þátt í hátíðarhöldum Vestur - Íslendinga árið 2004 í litla bæjarsamfélaginu í Mountain i N - Dakóta í Bandaríkjunum og Gimli í Manitoba í Kanada. Þessir hátíðardagar, Íslendingadagurinn, eins og þeir eru kallaðir beggja megin landamæranna eru haldnir ár hvert um mánaðarmótin júlí, ágúst og eru afar fjölsóttir. Í Mountain í N - Dakóta er talið að um 5000 gestir heimsæki bæjarsamfélagið sem telur um 100 manns. Í Gimli í Manitoba lætur nærri að 30 000 manns sæki þessa hátíðardaga heim. Þetta eru fjölmennustu hátíðir sem fólk af íslensku bergi sækir heim á hverju ári. Ef ég á þess einhverntíma kost mun ég reyna að komast aftur á þessar hátíðir meðal frænda okkar. Þetta var heimsókn sem skilur eftir varanleg áhrif á hvern þann sem kemur á þessa staði og rifjar upp þá miklu landaflutninga sem áttu sér stað upp úr miðri 19. öld og fram á 20.öldina. Vesturfaraferðirnar er þáttur í sögu okkar sem nauðsynlegt er hverjum Íslendingi að kynna sér til þess að skilja hvað þjóðin gékk í gegnum á þessu erfiða tímabili fyrir rúmlega 100 árum. Það er hægt að gera með því að lesa töluvert úrval af bókum um þetta efni og með heimsókn í Vesturfarasafnið á Hofsósi. Einnig eru í boði skipulagðar ferðir til helstu heimkynna Vestur - Íslendinga. Þrátt fyrir mikinn samdrátt í efnahagslífinu var stór hópur sem fór vestur að þessu sinni og hingað koma í vaxandi mæli fólk frá Vesturheimi til að leita að rótum sínum að sögn fjölmiðla. Í stuttu máli má segja að það sem er merkilegt við þessar heimsóknir vestur er að okkur er mætt af velvild og frændsemi öðlast nýja þýðingu á þessum slóðum. Við höfum fulla ástæðu til þess að vera stolt af því að vera Íslendingar. Hér býr gott fólk með stórt hjarta og hér er gott að búa. Við eigum okkur merkilega tungu, menningu og sögu - þetta er fjöreggið sem lyftir okkur upp úr fjöldanum og gerir okkur kleift að segja með stolti: Við erum Íslendingar og erum stolt af því. Vona að þetta sé ekki of hástemmt en nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að halda í það sem skiptir máli í raun. Þannig að eftirmæli okkar kynslóðar verði ekki þau að þegar mest á reið brast okkur kjarkurinn. Það má ALDREI henda. Kveðja.

Engin ummæli: