miðvikudagur, 5. ágúst 2009

Borga, borga ekki, borga, borga ekki.

Þetta er hrikalegt þetta Icesave mál, miklu verra en maður hafði ímyndað sér. Minnist þess þegar DÓ seðlabankastjóri sagði fyrr á þessu ári í Kastljósþætti að við ættum ekki að greiða óreiðuskuldir einstaklinga erlendis. Það virðist ekki halda. Minnist þess þegar fyrrum stjórnarformaður og eigandi LÍ sagði á sama vettvangi fyrir nokkrum mánuðum að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af þessum reikningum, því að það væru nægar eignir á móti. Það virðist ekki halda heldur. Minnist þess þegar talað var um að þessar ábyrgðir Íslendinga vegna Icesave gætu numið allt að einhverjum tugum milljarða. Það hefur ekki staðist heldur. Þá var farið að tala um hundrað til tvö hundruð og fimmtíu milljarða króna. Það hefur ekki staðist. Nú er talað um þrjúhundruð sjötíu og fimm milljarða króna. Skyldi það standast? Seðlabankinn telur að við fáum staðið undir þessum kröfum. Hagfræðistofnun telur vafa á því. Hvað fær staðist í þessu máli? Ýmis gögn málsins eru trúnaðarmál gagnvart okkur almenningi en við eigum að borga. Eitt er víst ég tel það hafi verið af yfirlögðu ráði að Landsbankinn safnaði þessum innlánum í útibúum í stað dótturfyrirtækja. Þeir vildu hafa frjálsar hendur til þess að flytja þetta fjármagn innan bankans og þá milli landa. Ég tel einnig að bresku hryðjuverkalögin hafi verið sett á Íslendinga og Landsbankann til þess að koma í veg fyrir að lánasafn bankans og annað laust fé í Bretlandi yrði flutt úr landi. Er þetta ekki einhvernveginn svona? Hvað ætli hryðjuverkalögin ein og sér hafi valdið okkur miklu tjóni. Nokkra tugi milljarða króna? Hundruðir milljarða króna? Hver talar um slíkt á tímum sem þessum.

Engin ummæli: