laugardagur, 15. ágúst 2009

"Ég er eins og annar krakki"

Ford T módel. Í dag fórum við á "aldamótadaga" á Eyrarbakka. Við vorum sein fyrir og vorum á Bakkanum um hálf sex. Áttum allt eins von á því að dagskráin þennan dag væri tæmd. Það fyrsta sem við rákumst á fyrir austan var þessi fallegi uppgerði Ford T módel. Ég kannaðist strax við þennan bíl. Þetta var gamli Fordinn hans afabróður míns, Guðmundar Gunnarssonar. Ég á yfir fimmtíu ára gamla barnæsku minningu þar sem ég, pabbi og Gunnar afabróðir og bróðir Guðmundar erum að skoða þennan bíl. Það var árið 1958 eða árið sem Þórunn systir fæddist. Bifreiðin var þá ansi lúinn en ég þykist muna að Gunnar hafi sagt við þetta tækifæri að hann væri enn gangfær. Einhver hefur orðið svo fyrirhyggjusamur að gera bifreiðina upp til minningar um liðinn tíma. Eitt virðulegasta verkefni hennar var að keyra fólk á Alþingishátíðina á Þingvöllum 1930. Bifreiðin stóð einmitt fyrir framan Gunnarshús þegar ég sá hana á Bakkanum í dag. En það hús átti langafi minn og langamma. Satt best að segja varð ég eins og annar krakki við að sjá þennan gamla "ættingja" minn. Eins og segir í Eyrarbakkaljóðinu.
Vignir Stefánsson og Guðlaug Ólafsdóttir. Næst lá leiðin í Gónhól en þar er kaffistofa og listagallerí. Þar var boðið upp á gott kaffi og vöflur. Meðan við sátum við á Gónhól mætti Vignir Stefánsson pínaóleikari og góðvinur Söngfélags Skaftfellinga og spilaði á hljómborð og píanó nokkur lög sem Guðlaug Ólafsdóttir söng undurljúft. Þar á meðal voru nokkur lög eftir Sigfús Einarsson tónskáld og fleiri. Sigfús var fæddur á Eyrarbakka árið 1887. Að loknum tónleikunum skoðuðum við safn fornbíla sem voru til sýnis á öðrum stað í þessu húsi. Við enduðum heimsókn okkar á Bakkan með því að fara á veitingastaðinn Rauða húsið áður en við héldum heim á leið. Þetta var óvænt og ánægjuleg síðdegisskemmtun. Takk fyrir okkur. Siðasta lagið sem söngkonan söng á tónleikunum var þetta ljóð:

Elskulegi Eyrarbakki
aftur kem ég heim til þín.
Ég er eins og annar krakki
alltaf þegar sólin skín
(Höf.: Garðar Sigurðsson Eyrarbakka)

Engin ummæli: