miðvikudagur, 26. ágúst 2009

Vinafundur

Sveinn og Ilkka. Upplýsingabyltingin tengir fólk saman frá fjarlægum heimsálfum. Ég kynntist bloggara frá Seattle fyrir nokkrum árum. Eftir að hafa lesið pistla hans um nokkurn tíma sendi ég honum línu og þakkaði honum skrifin sem ég hafði mikla ánægju að lesa. Í framhaldi fórum við að skrifast á og bera saman bækur okkar um ýmislegt m.ö.o. við urðum ágætis kunningjar á netinu. Þessi vinur minn er fiðluleikari og fiðlukennari og er það sýn tónlistarmannsins á lífið og tilveruna sem mér hefur fundist fróðleg. Hvorugur okkar hafði gert ráð fyrir því að við ættum eftir að hittast. Enda hefur Ísland ekki verið í þjóðbraut frá Seattle. Allt er þó breytingum háð. Fyrir nokkrum vikum skrifaði hann mér að hann væri á leiðinni til Finlands. Þar er hann fæddur og uppalinn en er búsettur til margra ára í Seattle. Hann sagði mér að hagkvæmasti ferðamátinn og stytta leiðin til Finlands væri nú með Icelandair með viðkomu á Íslandi. Við mæltum okkur að sjálfsögðu mót og áttum saman ánægjulega kvöldstund þar sem við gátum rætt augliti til auglitis í fyrsta skipti eftir nokkurra ára kynni á netinu. Með honum í ferðinni var yngsta dóttir hans Sarah. Þessi fundur okkar var hinn ánægjulegasti og umræður svo líflegar að við gleymdum að taka myndir í tilefni þessara tímamóta. Við bættum þó úr því daginn eftir rétt áður en hann hélt af landi brott með því að mæla okkur mót við sundlaugarnar í Laugardal til þess að festa fund okkar á mynd. Þetta er enn ein dæmisagan um það hvernig netvæðingin tengir okkur í óvæntar og skemmtilegar áttir. Kveðja.

Engin ummæli: