föstudagur, 22. ágúst 2008

Laxá í Refasveit heimsótt.

Ofarlega í ánni. Við félagarnir Helgi og Hörður fórum norður í Laxárdal í Refasveit að veiða lax. Við lögðum af stað á miðvikudagskvöldið og vorum fram á föstudag. Veiðihúsið er flott og alltaf verið að bæta það. Við uppskárum fjóra laxa og áttum þarna góðan tíma í góðu veiðiveðri. Hörður Stefán sá um að elda handa okkur gömlu mönnunum og þvílíkar kræsingar sem hann bar fram þessa tvo daga. Lambafile í sérstökum lög og kjúklingabringur í mjög góðum kryddlegi með öllu tilheyrandi. Hér má sjá upp eftir ánni frekar ofarlega í henni. Umhverfið er mun stórbrotnara neðan þjóðvegarins. Þetta er frábært veiðisvæði og mikil náttúruperla þessi dalur. Þegar best lét munu hafa verið 28 býli í dalnum en nú eru þau aðeins fjögur. Það var orðið tímabært að heimsækja Laxá í Refasveit aftur því ég hef ekki komið þangað í bráðum tvö ár. Þetta er svo friðsælt svæði.
Rennt fyrir. Áin var vatnslítil þessa daga. Laxinn leynist víða í litlum pollum eins og þeim sem sjást á þessari mynd. Þetta kallast víst rennslisveiðar þ.e. að standa fyrir ofan pollana og renna maðkinum ofan í þá.
Helgi í stuði. Helgi vann það afrek á fimmtudeginum að ganga eina 10 kílómetra meðfram efri hluta árinnar fyrir ofan veiðihúsið Torfu. Við vorum mættir snemma í morgun út í á og höfðum tvo laxa upp úr krafsinu. Annar fékkst úr svokölluðum Urriðapolli og hinn fékkst úr Húsakvísl ef ég man þetta rétt.
Hörður á síðasta leik. Hann náði þessum fallega laxi rétt áður en við hættum að veiða. Hylurinn heitir Lambhagahylur. Hér má nálgast upplýsingar um hylina í ánni. Þegar við hættum veiðum brunuðum við niður á Blönduós og náðum að sjá seinni hálfleikinn í undanúrslitaleik okkar og Spánverja. Wow þvílík frammistaða sem liðið okkar sýndi. Kveðja.

Engin ummæli: