miðvikudagur, 27. apríl 2005

Nytjastefnan

Þessi bílavandræði mín og ákvörðun um viðgerð á gamla bílnum er rökrétt ákvörðun miðað við þá stefnu sem við höfum tekið upp á undanförnum misserum. Maður á ekki að henda öllum hlutum þótt þeir séu komnir til ára sinna. Heldur leitast við að fullnýta hlutina og forðast þetta neysluæði sem er allsstaðar í kring. Við höfum látið gera upp fullt af gömlum húsgögnum undanfarin misseri og haft ómælda ánægju af því. Maður þarf ekki alltaf að vera eins og allir hinir. Það er meira en að segja það að taka milljóna lán til þess að keyra á nýjum bíl. Það er ekkert að því að nota gamla bílinn sinn meðan það er hægt að verja það. Sumir halda að þeir verði meiri karlar fyrir bragðið. Það er alger misskilningur að mínu mati. Þegar maður er með mörg járn í eldinum og langar að fá fleira út úr lífinu en að keyra nýjan bíl þá reynir maður að komast af með sem minnstan pening í bíl. Það er ótrúlegt hvað það er dýrt að reka bíl. Það kostar okkur á ári að reka tvo bíla sem lítið hafa bilað svona 500 þúsund krónur í beinar greiðslur vegna rekstursins. Ekkert er vegna afskrifta af þeim kostnaði vegna þess að ég lít svo á að þeir séu að fullu afskrifaðir. Það er auðveldlega hægt að tvöfalda þessa upphæð með því að yngja upp bílana. Ég er líka búinn að læra það að þótt maður leggji sig allan fram um að gera góð kaup á bílum þá eru það alltaf bílasalarnir sem hafa betur. Jæja nóg um bílapælingar í bili. Kveðja.

Engin ummæli: