sunnudagur, 20. september 2009

Sofið á vaktinni?

Geir hjá Skavlan Ég er búinn að horfa fjórum sinnum á þátt norska sjónvarpsmannsins Skavlans og viðtal hans við Geir Haarde nú ári frá því fjármálakrísan skall á með tilheyrandi hruni íslenska bankakerfisins. Skýringin sem Geir gaf var að bankakerfið hafi verið orðið of stórt og við fall Lehmann Brothers í USA hefði legið fyrir að í óefni væri komið. Hann var spurður eftir því hvort hann sæi eftir einhverju. Hann nefndi að breyta hefði átt ESS samningnum varðandi tryggingaábyrgð ríkisins á erlendum umsvifum bankanna. Styrkja Fjármálaeftirlitið og krefjast þess af bönkunum að þeir minnkuðu umsvif sín. Geir sagðist vera reiður og sár bönkunum og útrásarvíkingunum hvernig fór. Hann var aðspurður ekki reiðubúinn að taka á sig alla ábyrgð af hruninu. Það væri ekki hægt að gera einn mann ábyrgan fyrir því. Það var satt best að segja hryggilegt að horfa á beygðan fyrrum forsætisráðherra okkar í viðtali í sænsk/norskum skemmtiþætti með hlátrasköllum og skipulögðum klappinnslögum tíunda ógæfu okkar. Enda var undirtónn þáttarins sá að gera grín að litla Íslandi, sem skuldaði 10 falldar "árstekjur" sínar. Geir var einnig spurður hvort hann hafi sofið með hrotum á vaktinni, eini maðurinn í ríkisstjórninni sem var með hagfræðimenntun. Viðskiptaráðherrann hefði verið heimspekingur, fjármálaráðherrann dýralæknir og seðlabankastjórinn ljóðskáld. Hvenær varð það til siðs að gera lítið úr menntun og hæfileikum fólks? Göran Persson fyrrum forsætisráðherra kláraði ekki nám. Annar fyrrum forsætisráðherra Svía og núverandi utanríksráðherra Carl Bildt er "drop out" úr háskóla. Hef ekki orðið var við það að Svíar væru að hæðast af því í skemmtiþáttum sínum. Koma tímar koma ráð. Við munum vinna okkur út úr þessum erfiðleikum og endurheimta vopn okkar. Nauðsynleg forsenda þess er að við gerum sjálf hreint í okkar húsum. Ef einhver brot hafa verið framin þarf að greiða úr þeim. En við verðum líka að horfast í augu við það að við áttum okkur mörg draum um að hér mundu rísa nýjar stoðir undir íslenskt atvinnulíf, öflugt bankakerfi og umsvifamikil verslunar- og þjónustufyrirtæki með starfsstöðvar í nálægum löndum. Við verðum að kannast við þessa draumsýn og þora að viðurkenna að hún hafi ekki gengið eftir eins og vonir stóðu til. Ef við hverfum til baka í tíma og látum minnimáttarkenndina ná tökum á okkur munum við verða lengur að vinna okkur til baka. Við skulum ekkert vera að bjóðast til að koma fram í erlendum skemmtiþáttum til þess að gefa færi á okkur rétt á meðan við erum að ná okkur eftir áfallið. Heldur skulum við muna að sá hlær best sem síðast hlær. Hér má nálgast þáttinn: Skavlan.

Engin ummæli: