þriðjudagur, 15. september 2009

Í minningu forfeðranna.

Tenórinn í Söngfélagi Skaftfellinga
Í dag hefði afi minn Jón Hjörtur Finnbjörnsson (1909 - 1977) orðið 100 ára. Afi var mikill söngvari, bæði sem einsöngvari og í kórum. Lifibrauð hans var prentiðn og söngurinn. Hann var einn af burðarásum í söng- og leikhúslífi á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar vestur á Ísafirði, sinni heimabyggð. Um það vitna ýmsar greinar og umsagnir í vestfirskum blöðum. Hann tók einnig virkan þátt í kórstarfi eftir að hann ásamt fjölskyldu sinni flutti til Reykjavíkur. Um hann segir í blaðinu Vesturlandi þegar hann var kvaddur af Ísfirðingum árið 1948: "Jón Hjörtur er einn af þeim fáu mönnum, sem ég hef aldrei heyrt leggja annað en gott eitt til manna og málefna, þess vegna mun heldur enginn leggja til hans illt orð, en það er gott veganesti." Þetta voru kveðjuorð frá ísfirskum vini sem var að þakka honum fyrir einsöngstónleika og kveðja hann áður en hann fór suður til Reykjavíkur. Í dag hefði Friðrikka Sigurðardóttir (1897 - 1985) amma Sirrýjar einnig átt 112 ára afmæli. Friðrikka var sköruleg kona og eftirminnleg. Sirrý bjó um tíma hjá henni sem barn og afa sínum Ingvari Pálmasyni (1897 - 1985) skipstjóra. Milli Friðrikku og hennar voru alltaf sterk bönd. Við leituðum töluvert í smiðju hjá Friðrikku á fyrstu hjúskaparárum okkar og veitti hún okkur góðan stuðning með ýmsum hollráðum. Þess má geta að elsta barn okkar ber sömu nöfn og afi minn og amma Sirrýjar og heitir Hjörtur Friðrik. Það er svo önnur saga að hann fékk í dag sérfræðingsréttindi sín sem bæklunarlæknir á afmælisdegi þeirra. Það er vonandi að menntun hans nýtist vel þjáðu fólki með stoðverki, en Jón Hjörtur afi hans átti lengi ævinnar við erfiða stoðkerfisverki að glíma. Við óskum Hirti Friðrik til hamingju með nýfengin sérfræðiréttindi. Önnur tíðindi dagsins eru þau að í dag hófust kóræfingar vetrarins hjá Söngfélagi Skaftfellinga og er þetta sjötti veturinn sem ég tek þátt í starfi kórsins. Ég hef haft af því mikla ánægju og góð kynni við söngfélaga og get vel mælt með þátttöku í kórstarfi af þessu tagi. Kveðja.
(Mynd Kristinn Kjartansson.)

Engin ummæli: