sunnudagur, 29. nóvember 2009

Enn eru jól hjá illum

Illum
"Enn eru jól hjá illum." Þetta var viðkvæði sem maður heyrði oft á aðventunni hér á árum áður. Þetta var hluti af Kúrlandshúmor tengdamóður minnar og gæti hann þess vegna verið ættaður úr Glaðheimunum þar sem tvíburasystir hennar býr. Margur verður fyrst forviða við að heyra þetta. Þannig var allavega um mig. Hva eru jól líka hjá illum? Er verið að vísa til orðatiltækis úr íslenskri menningarsögu? Svo er ekki, þessi orð eru orðaleikur íslenskra námsmanna í Danmörku fyrir langa löngu. Tilvísun í að ekki væri búið að taka niður jólaskreytingarnar í gluggunum hjá versluninni Illum á Strikinu í Kaupmannahöfn. Á annan í jólum 1975 vorum við Sirrý og Hjörtur stödd á Strikinu í Kaupmannahöfn. Það situr eftir í minningunni að einmitt þennan dag voru borgarstarfsmenn að taka niður jólaskrautið. Áþreifanleg minning um að jólin eru helsta vetrarvertíð kaupmanna í skammdeginu. Hvað eru jólin? Okkur er sagt að þau séu fæðingarhátið frelsarans. Stórhátið kristinna manna. Fjölskylduhátíð, hátíð barnanna og tilbreyting í skammdeginu. Máttur fjölmiðlunar er svo mikill að þú skalt í það minnsta fá kerti og spil. Enginn sleppur við neysluokið sem tengist því miður þessari hátíð. Hátíðin veitir sem betur fer ýmislegt annað. Hún er tilefni til að upphefja hugann, styrkja fjölskylduböndin. Lyfta sér upp úr hversdagleikanum leita að fegurðinni í lífinu. Kveikja lifandi ljós og njóta augnabliksins þessara örfáu frídaga sem henni fylgir. Hún er síðast en ekki síst hátíð barnanna. Gleðilega aðventu nóg í bili.

Engin ummæli: