fimmtudagur, 3. desember 2009

Andlaus

Ég hef verið andlaus undanfarna mánuði og lítið skrifað á þessa heimasíðu. Í kvöld horfði ég út um gluggan og hugur minn fylltist af gleði. Himininn var heiður og stjörnubjartur. Yfir Esjunni var fullt tungl að rísa í öllu sínu veldi og kvöldbirtan var ótrúlega skær. Hverfið mitt, Fossvogur kúrði í dalverpinu og allt var svo friðsælt að sjá. Framundan er viðburðarrík helgi. Á laugardaginn verður Loftsalaættin frá Mýrdal með kynningu á ættartali sínu sem gefið hefur verið út í bókarformi. Á sunnudaginn eru svo Söngfélag Skaftfellinga með aðventuhátið og söngskemmtun að venju. Sigrún hefur verið í próflestri þannig að maður hefur haft hægt um sig heima fyrir. Svo kveikti ég á sjónvarpinu og datt inn í umfjöllun um Icesave. Ég held að þetta sé sjötti eða sjöundi dagurinn sem þessi umræða fer fram. Það verður alvarlegt mál fyrir þá þingmenn sem samþykkja þessa nauðarsamninga vegna þess að sá gjörningur festist við nöfnin þeirra um alla framtíð eins og góður vinur minn orðaði það. Ég var ekki búinn að hlusta lengi þegar andleysið heltist yfir mig að nýju en ég ákvað að láta það ekki ná tökum á mér að nýju og slökkti á umræðunni. Það var auðveld ákvörðun fyrir mig en það er ekki jafn auðvelt fyrir þingmenn að afgreiða þetta mál með sama hætti.

Engin ummæli: