laugardagur, 14. nóvember 2009

The Annual Juke Joint Festival 2009.

Ég var mættur á Batteríið í gær til þess að hlusta á þrjár hljómsveitir á tónleikum sem nefndir voru þessa flotta enska heiti: The Annual Juke Joint Festival 2009. Tónleikarnir byrjuðu á Hljómsveit Brynjars Jóhannssonar og Tótu Jónsdóttur. Næst tróð á svið Bergþór Smári og Mood og að lokum mættu The Lame Dudes á svið. Það er merkilegt hvað þessi "petit" kona, Tóta Jónsdóttir, hefur djúpa, sterka og hrífandi rödd. Við Birna Hallsdóttir veltum því fyrir okkur hvort hún minnti meira á Edith Pjaf eða enn suðlægari og þá baltneskar söngkonur. Ég var á Pjaf línunni. Ég vil gjarnan heyra meira í þessari konu í framtíðinni. Um hljómsveit Brynjars er það að segja að það var trommarinn, sem ég veit ekki hvað heitir sem barði saman "beatið" í bandið. Næstur kom á svið Bergþór Smári og Mood. Ég segi nú bara Wow.. eða "walk on water." Þarna er mjög góður söngvari og gítarleikari á ferðinni. Hann náði upp stemmningu enda var "beatið" frábært og tónlistin náði góðum tökum á manni, þar sem bryddað var upp á Jimmy Hendrix töktum. Nú síðasta atriðið á dagskránni voru The Lame Dudes. Það fór ekki milli mála að þar var voru aðalkarlarnir að stíga á stokk. Ég þekki nú orðið lögin þeirra og textana þannig að ég velti svolítið fyrir mér flutningi og spili. Það fer ekki milli mála að sólógítarleikarinn Snorri Björn Arnarson er meðal þeirra bestu sem ég hef hlustað á. Hann er náttúrutalent og skaftfellsk ættareinkenni "i ögon fallande" eins og sænskurinn mundi segja, glaðlindur og velviljaður minnir mig á Eric Clapton á sviði. Það fór ekki hjá því að margar konur í kringum mig veltu þessum hljómsveitarmeðlimi mikið fyrir sér. Ég hef þó séð hann í meira stuði og hann mátti gefa aðeins meira í þetta í gær. Ég hafði það svolítið á tilfinningunni að hann væri að segja okkur að hann þyrfti ekkert á þessu að halda. En hann verður að skilja að við viljum aðeins meira og meira. Hannes Birgir Hjálmarsson er góður og þekkilegur söngvari og textasmiður "easy" going", sá sem ljáir bandinu mestan persónulegan karakter eins og söngvarar gera jafnan. "He means business" eins og Ameríkaninn mundi orða það. Sá þriðji sem ég er farinn að fylgjast með er bassaleikarinn hann Jakob Viðar Guðmundsson. Maður vanmetur alltaf bassana, sérstaklega þegar tenórar eiga í hlut. Þetta er traustur bassaleikari sem styrkir vel "beatið" og taktinn í bandinu. Trommarinn, Kristján Kristjánsson var líka mjög góður. Ég er ekki viss en getur verið að þetta hafi verið sami trommarinn sem barði "beatið" í fyrstu hljómsveitina? Staðurinn var svona á mörkunum, en hljómstyrkur var þægilegur. Ég enda þessa umfjöllun á orðum Júlíusar Valssonar vinar míns sem sendi mér skeyti í dag og sagði: The Lame Dudes eru ekkert lame. Ég segi bara áfram strákar gefið í og þið náið alla leið og takk fyrir mig.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hef greinilega misst af miklu hér í útlegðinni. Ég mæti næst, Sirrý