laugardagur, 23. maí 2009

Hittingur

Det forsömte forår. Í kvöld ætlar að hittast '52 árgangurinn hér í Kópavogi. Það verður spennandi að hitta fólk og sjá hvort maður muni eftir einhverjum. Flesta hefur maður ekki séð í yfir fjörtíu ár. Við svona endurfundi dettur mér alltaf í hug skáldsagan "Det forsömte forår" eftir Hans Scherfig. Vanrækta vorið samkvæmt hrárri orðabókarþýðingu. Þetta er saga sem hafði varanleg áhrif á mig þegar ég las hana í skóla og segir frá 25 ára stúdentum sem eru að hittast á endurfundi. Í minningunni var skólavistin svo ljúfur tími en þegar farið er að kafa í fortíðina koma ýmsar dökkar hliðar af dvölinni í ljós. Skólinn var hryllingsbúð. Sérstaklega einn kennarinn, herra Blomme, satisti og nemendurnir margir báru varanlegan skaða af dvöl sinni í skólanum. Með því að smella hér má nálgast útdrátt úr sögunni. Ég tengi söguna við dönskutíma í MR hjá Bodil Sahn þegar ég rifja upp þessa sögu nú næstum fjörtíu árum síðar. Þar sem við vorum að staglast í gegnum dönskuna og hefur hún vafalaust verið að velta því fyrir sér hvaða framtíð biði þessara ungmenna sem voru með misjöfnum árangri að nema tungu gömlu herraþjóðarinnar. Ég vona og er þess fullviss að kvöldið í kvöld snúist eingöngu um góðar minningar. Kveðja.

Engin ummæli: