miðvikudagur, 20. maí 2009

Sólardagar

Þetta eru búnir að vera frábærir sólardagar undanfarið. Það er ótrúlegt hvað sólarhiti hefur góð áhrif á allt mannlíf. Það hægist á öllu og hlutirnir virðast viðráðanlegri. Í dag fór ég einn Elliðaárhring með Skálmurum sem er fólk sem hittist kl. 19.30 niður í Fossvogi og gengur saman meira og minna allt árið. Þessar göngur eru á vegum Skaftfellingafélagsins í Reykjavík. Ég er líklega búinn að fara hringinn með þeim tíu sinnum í vetur. Lengsta gönguferðin tók heilar 90 mínútur í vetrarmyrkri, snjó og hálku. Í dag vorum við 50 mínútur vegna þess að við styttum aðeins hringinn og fórum í gegnum skóglendi. Í kvöldgöngunni nú var sólskin, stilla, fuglakvak og allt orðið iðagrænt.

Engin ummæli: