laugardagur, 16. maí 2009

Yndislegur dagur í skógarrjóðri

Heiðmörk. Þessi sumardagur er einn af þessum fallegu dögum sem maður gleymir seint. Sól, hiti og hægur andvari í lofti. Ég ákvað að skella mér aðeins út fyrir bæinn og komast í snertingu við náttúruna. Leiðin lá upp í Heiðmörk mig langaði í skandínavíska skógarstemmingu, leita að skógardísum, fá útsýni yfir borgina og nágrenni hennar. Þetta rættist allt saman og í einu skógarrjóðrinu fann ég meira að segja nokkrar skógardísir og þjóna þeirra. Ég gékk inn í rjóðrið og gaf mig á tal við þær þar sem þær voru í óða önn að grisja skóginn. Þær buðu mig velkominn og hvöttu mig til að skoða fallegt umhverfið sem ég og gerði. Þetta var hið fegursta rjóður og á eftir að verða enn notalegra þegar fram líða stundir. Ég hreifst af elju þeirra og dugnaði. Taktfast unnu þær mikilvægt verk sitt. Áður en ég vissi af var ég farinn að grisja með þeim. Draga drumba og greinar í knippi sem þjónarnir drógu burtu. Öllu verður þessu svo breytt í kurl þegar þar að kemur og skilað aftur. Þetta skógarrjóður heitir Skaftafell og er í umsjón Skaftfellingafélagsins í Reykjavík. Kyrrðin þarna uppfrá er einstök, fjölbreytilegur fuglasöngur. Það eina sem truflaði kyrrðina var þéttur niður frá Surðulandsveginum frá bílunum sem voru aðallega á austurleið. En maður leiddi það stílbrot bílismans hjá sér. Ég teigaði í mig sólargeislanna og orkusvið gróðursins og hélt aftur niður í byggðir. Yndislegur dagur. Kveðja.

Engin ummæli: