föstudagur, 1. maí 2009

Fyrsti maí.

Þennan dag tengi ég ávallt minningu afa míns Axels Gunnarssonar sjómanns og hafnarstarfsmanns. Líklega vegna þess að djúpt í minningarbrotum bernskuáranna er mynd af okkur í kröfugöngu niður Skólavörðustíginn. Ég hef verið svona fimm ára gamall. Um afa sagði Guðmundur jaki, formaður Dagsbrúnar einu sinni við mig: "Axel er einn af kreppukynslóðinni sem af harðfylgi komust í gegnum þær hremmingar sem fylgdu Kreppunni miklu á þriðja áratug síðustu aldar." Mér þótti vænt um þessi orð vegna þess að þau vísuðu til karlmennskulundar og ósérhlífni hans. Í fórum mínum á ég einnig lýsingu af honum úr bók Tryggva Ófeigssonar útgerðarmanns þar sem mannkosta hans er minnst sérstaklega í æviminningum Tryggva. Annað minningarbort frá fyrsta maí hátíðarhöldum er töluvert nýrra eða frá Svíþjóðarárunum þegar maður mætti upp á búinn til að hlutsta á Olaf Palme á Götaplatsen árið 1976 halda hátíðarræðu dagsins. Þriðja og síðasta minningarbrotið er frá árinu 1983 þegar eiginkonan dreif alla fjölskylduna niður í bæ til að sýna BHM félögum sínum samstöðu í fyrsta verkfalli háskólamanna hjá ríkinu. Á leiðinni kenndi hún börnum sínum þetta slagorð: Óli er ljóti karlinn - Indriði er illur. Svo vel tókst henni til við kennsluna að við ýmis tækifæri á liðnum áratugum hefur þessi setning skotist upp í huga minn. Fyrir þá sem yngri eru er rétt að geta þess að Óli er núna forseti lýðveldisins og Indriði var yfirmaður launamála hjá ríkinu og síðar ríkisskattstjóri og ráðuneytisstjóri. Hann talar nú um að rétt sé að hækka þannig skatta að þeir bíti. Launþegum þessa lands eru sendar bestu kveðjur í tilefni dagsins.

Engin ummæli: