sunnudagur, 3. maí 2009

Innhverf íhugun

Ég skellti mér út í Háskólabíó í gær til að hlusta á kvikmyndaleikstjórann David Lynch fjalla um innhverfa íhugun. Hann bað um spurningar úr sal og svaraði þeim. Að vísu var stóri salurinn í Háskólabíó yfirfullur þegar ég kom en ég fylgdist með umfjöllun hans af sjónvarpsskjá í andyrinu. Það var fróðlegt að heyra í honum og einnar messu virði. Þessi íhugun sem hann talar fyrir byggir á því að hún sé stunduð kvölds og morgna. Maður kaupir möntru og leiðbeiningar sem kosta 100 þúsund krónur.(ath. hélt þetta væri 10 þúsund kr. en samkvæmt ábendingu er verðið 100 þúsund kr. sem ég sá á líka á miða en trúði ekki!) Leitað sé hinnar fullkomnu lífshamingju sem sé djúpt í manneskjunni sjálfri. Hann lofar góðum árangri með þessari aðferð. Maður losar sig við reiði og víkkar jákvæða hugsun með það að markmiði að losa sig við kvíða, hræðslu og ótta. Þannig opnist betur ýmis svið manneskjunar eins og þáttur sköpunar, skynjunar o.s.fr. Fólk eigi að leitast við að ganga í átt að ljósinu. Aðspurður hvort reiði geti átt rétt á sér sagði hann að það kæmi sér eingöngu vel fyrir listamenn sem væru að reyna við stúlkur. Þetta er svona það helsta sem ég nam af frásögn hans. Þessi samkoma vakti mig aftur á móti til meðvitundar um hversu mikilli þörf við erum fyrir ábyrga og trúverðuga leiðsögn. Hvar eru leiðtogar okkar - veraldlegir og andlegir eru þeir allir í felum eða enn að rífast? Ekkert í þessum fyrirlestri var það fréttnæmt eða nýtt að það gæti ekki rúmast í sunnudagspredikun. Af hverju er kirkjan svona sjálfhverf að hún höfðar ekki lengur til unga fólksins sem var þarna í miklum meirihluta? Af hverju þurfa svona margir kennimenn kirkjunnar að skera sig úr fjöldanum sem "skrítlingar" eins og krakkarnir segja? Hafa þeir enga trú á boðskapnum - eiga þeir ekki til lítillæti - er yfirborðsmennskan orðin svona mikil - eiga þeir eða hafa þeir ekkert að gefa? Spyr sá sem ekki veit. Satt best að segja sat ég inni með þessa hugsun eftir að hafa farið á þennan fyrirlestur hjá leikstjóranum. Eigi að síður margítrekaði hann að þessi aðferð hefði ekkert með trúmál að gera - auðvitað er hún meiður af austurlenskum trúfræðum hinduisma - búddisma? Ég er ekki nógu vel að mér í þeim fræðum til þess að skera úr um það. En margt af því sem hann sagði má einnig finna í kristinni trúariðkun svo mikið er víst og þarf ekki möntru við - nóg að lesa brot úr Nýja testamenntinu, íhuga eða fara með bæn. Nóg í bili. Kveðja.

Engin ummæli: