sunnudagur, 17. maí 2009

Af W.H. Auden gleymd minning.

W.H.Auden. Árið 1996 kom út bók í Bretlandi sem heitir Moon Country,further reports from Iceland eftir Simon Armitage og Glyn Maxwell. Tilefni þessarar bókar var að minnast ferðar ljóðskáldsins W.H. Auden og Louis Mac Neice til Íslands árið 1936. Þessir tveir menn, Armitage og Maxwell, sem komu hingað 1994 voru sagðir efnilegustu ljóðskáld Breta á tíunda áratug síðustu aldar. Það var BBC radio í Bristol sem stóð fyrir þessu verkefni og komu þeirra hingað til lands vegna þáttagerðar fyrir BBC útvarpið. Aðkoma mín að þessu máli var sú að koma þessum mönnum um borð í fiskiskip. Vegna þessa hluta verkefnisins átti ég nokkur samskipti við aðstoðarkonu stjórnandans við að koma þeim til Eyja og um borð í fiskiskip. Ég fékk síðar bréf frá þessum starfsmanni BBC fyrir veitta aðstoð. Í bréfinu segir hún að einmitt þessi ferð með fiskiskipinu hafi verið einn af hápunktum ferðasögunnar. Hún sendi mér þennan þátt sem þakklætisvott á spólu svo að ég gæti hlustað á hann. Árið 1996 var ég staddur í London þegar umrædd bók kom út, - merkileg tilviljun. Ég keypti eintök af bókinni og auk þess á ég blaðaumsagnir um bókina m.a. í The Daily Telegraph og var látið mikið með bókina í blaðinu. Á eina fundinum með listrænum stjórnanda þáttarins og aðstoðarkonu í Reykjavík lýstu þær verkefninu og óskuðu eftir aðstoð eins og áður segir. Það skal viðurkennt að ég hafði ekki hugmynd um á þeim tíma hver W.H.Auden var, hvað þá að hann hefði nokkurntíma komið til Íslands. Fyrir fundinn vissi ég aðeins að BBC hefði áhuga á að komast um borð í fiskiskip þannig að ekki gafst tími til að kynna sér hver W.H. Auden var. Ég minnist enn með nokkrum hryllingi svipnum á stjórnanda þáttarins þegar þessi fáfræði mín varð henni ljós. Nú til að gera langa sögu stutta þá ákvað ég að bæta úr þessari fáfræði minni. Las ævisögu hans og keypti helstu ljóðabækur m.a. á ég frumútgáfu Letters from Iceland sem ég keypti fyrir nokkrum árum. Þessi kynni mín af W.H. Auden hafa verið mjög gefandi undanfarin ár og sannfært mig um að mikið skortir á það að uppfræða okkur Íslendinga um þá sameiginlegu menningararfleið sem við eigum með Bretum í verkum og lífi Audens. Ég sendi skeyti til RÚV varðandi það efni sem ég á frá BBC um þessa heimsókn og minningu W.H. Auden ef áhugi væri á því að nálgast spóluna, bókina, ljóðabækurnar til að gera Auden meiri og betri skil en ég fékk ekkert svar. Ég minnist þess ekki að hafa frétt af umfjöllun um þessa ferð Armitage og Maxwell til Íslands í íslenskum fjölmiðlum og þykir það í raun merkilegt sinnuleysi. Svona getur menningararfur okkar legið hér og þar gleymdur. En kannski vaknar einhver upp einhverntíma og kemst að því að þetta sé eitthvað sem þarf að sinna og koma á framfæri. Þangað til geymir þessi bloggsíða þessa frásögn. Ég vona bara að spólan sem ég er með undir höndum verði ekki ónýt. Kveðja.

Engin ummæli: