sunnudagur, 10. maí 2009

Að loknu vetrarstarfi.

Söngfélag Skaftfellinga. Hápunktur vetrarstarfsins í kórnum voru að sjálfsögðu tónleikar Skaftanna í Seltjarnarneskirkju í dag undir stjórn Friðriks Vignis Stefánssonar. Í kirkjuna voru mættir á annað hundrað gestir. Ég hef aldrei séð jafn marga gesti á tónleikum okkar áður. Efnisskráin rann í gegn við undirleik tríósins en í því spiluðu þeir Vignir Þór Stefánsson á píanó, Jón Rafnsson kontrabassi og Jón Elfar Hafsteinsson á gítar. Ung efnisstúlka Jóna G. Kolbrúnardóttir, sópran söng tvö einsöngslög. Sigurlínu Kristjánsdóttur, formanns kórsins sem lést fyrir nokkrum vikum var minnst sérstaklega við þetta tækifæri.Allir voru sáttir og glaðir að loknum tónleikunum enda fjölbreytileg dagskrá í boði. Það er mikil vinna sem liggur á bak við það að halda svona tónleika. Æfingar á hverjum þriðjudegi í vetur og svo nokkrir langir laugardagar til þess að skerpa enn frekar á æfingu laganna. Í þessu starfi má finna rætur íslenskrar menningar, átthagatryggðina og útrás fyrir sköpun og góðan félagsskap. Þessi helgi hefur að stórum hluta farið í söngiðkun því við vorum nokkra tíma upp á Akranesi í gær og frá tólf út í kirkju til að verða fimm. Ég er ekki að telja þetta eftir einungis að benda á hvað þarf til að halda gangandi almennri söngiðkun. Að lokum þakka ég félögum mínum í kórnum fyrir yndislegar stundir í vetur. Kveðja. (Mynd: Kristinn Kjartansson)

Engin ummæli: