mánudagur, 11. maí 2009

Við tímamót - fimm ára blogg afmæli.

Kæru lesendur. Það eru núna fimm ár síðan þessi bloggsíða var opnuð. Alls eru innleggin orðin 911 á þessum árum. Ritstjórnarstefnan hefur ekki breyst. Pistlarnir fjalla í meginatriðum um ýmis efni tengd lífi og starfi bloggarans. Af hverju bloggar fólk? Það má telja ýmislegt til. Þetta er augljóslega leið til að tjá sig, deila ákveðnum hugðarefnum með hópi lesenda. Skrásetja hitt og þetta sem hægt er að ryfja upp síðar. Það er svo mikið af bloggsíðum að það eru yfirleitt einhverjir tengdir bloggaranum sem nenna að lesa. Þó er það ekki algilt. Ég á mér sjálfur nokkra uppáhaldsbloggara sem ég les reglulega. Þeir eru ekkert skyldir mér og ég hef aldrei hitt þá og geri ekkert sérstaklega ráð fyrir því. Er þó kominn í samband við þá. Því á ákveðnum tímapunkti fannst mér rétt að gefa mig upp við þá. Það eru fáir sem skrifa línu inn á bloggið mitt. Það skiptir mig engu máli ég veit að það er þó nokkur hópur sem les það og það nægir mér. Þetta var aldrei hugsað sem umræðublogg dægurmála með eftiráspekingum. Þetta blogg var hugsað í annállsstíl eins og nafnið ber með sér og vettvangur um hugðarefni bloggarans, m.ö.o. sjálfhvert blogg, orð sem ég nota orðið í tíma og ótíma eftir 6. október 2008. En jafnframt er það ætlað þér lesandi góður sem lesefni með uppbyggilegu efni og jákvæðri umfjöllun um hugðarefni sem gætu vakið forvitni. Það er þannig með þennan bloggara að hann vill ekki ræða mikið um bloggið eða efni þess. Þótt að sjálfsögðu sé ekki amast við því ef þig langar að nálgast þennan bloggara. Öllum er velkomið að lesa það meðan það er opið og bloggarinn treystir því lesandi góður að þú virðir þessa persónulegu miðlun upplýsinga og farir drengilega með efni þess. Jæja þetta er orðið nóg í tilefni fimm ára afmælisins. Ég læt þetta duga. Kveðja.

Engin ummæli: