sunnudagur, 15. mars 2009

Sálarstyrking - daðrað við tóninn.

Mikið er til skrifað um tónlist, gildi hennar og tilgang. Af hverju leitum við í tónlistina? Þetta hefur verið mér hugstæð spurning nokkuð lengi. Ég hef undanfarin áratug eða svo lagt nokkuð á mig í frístundum til þess að grúska í kringum þessa spurningu. Hlustað á tónlist, spilað á hljóðfæri, grúskað í nótum, skoðað samspil texta og tóna, lesið ævisögur tónskálda, rætt og lesið viðtöl við tónlistarfólk og áhugafólk um tónlist, lesið gagnrýni um tónlist. Í stuttu máli má ef til vill segja að ég hafi verið alæta á allt varðandi efnið. Ég hef ekki komist að neinni ákveðinni niðurstöðu á þessari vegferð minni. Eitt er þó víst að tónlistariðkun styrkir sálartetrið og nærir það. Eins og þátttakan í þessum tónleikum í dag sem ég var að segja ykkur frá. Hún hreinsar hugann og hún endurnærir líkamann eins og öll líkamleg iðkun reyndar en hún verkar sterkt á toppstykkið. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég hef haldið mig við tónlistina. Nú síðan er tónlistin félagslegur miðill. Hún tengir saman fólk úr ólíkum áttum með margvíslegum hætti. Líklega er ég kominn nálægt kjarnanum þegar ég segi að tónlistin tengi saman fólk. Það upplifir sameiginleg hughrif, tengist böndum og skapar eitthvað sem skiptir það máli. Það er ákveðin sköpun í því að stemma saman raddir allt eins og að spila lag á hljóðfæri, að ég tali ekki um að fara ótroðnar slóðir og skapa eitthvað alveg nýtt. Ungur piltur, sonur látins æskuvinar míns sem ég missti samband við eins og gengur sagði við mig þegar hann var að segja mér frá lífshlaupi þessa gamla vinar: Tónlistin var líf hans og yndi en vinnan til þess að hafa í sig og á. Það kom á daginn að þessi vinur minn hafði spilað mikið og meira að segja samið tónlist sem ég tel æðsta stig tónlistariðkunar. Það brast í mér strengur við þessa frásögn og ég saknaði þess að við skyldum á okkar æskuárum ekki hafa fundið hvorn annan á þessu sviði. Ef til vill hefðu böndin ekki slitnað svona fjótt. Svona hrærir tónlistin í sálartetrinu. Mýkir það og nærir og skerpir skilvit og tilfinningu. Kveðja.

Engin ummæli: