sunnudagur, 8. mars 2009

Textasmiðurinn fann útgefanda

Ég er líklega búinn að fá áhugasaman útgefanda á samantekt minni um Árna Jónsson verslunarstjóra Ásgeirsverslunar. Þetta getur í besta falli talist samantekt af styttri gerðinni. Ég var búinn að koma henni á framfæri við tvo aðila sem reyndust ekki hafa áhuga á að birta hana. Töldu efnið ekki falla að ritstjórnarstefnu sinni. Annar þeirra, vinur minn, benti á aðila sem gæti haft áhuga og nú er að sjá hvort eitthvað verður úr birtinu. Þetta hefur verið svona eins og maður les um í þegar fólk sendir texta sinn milli útgefandanna. Það er komið rúmt ár síðan ég sendi efnið til fyrri aðilans. Þessi árátta að semja texta er sérstök. Er það ekki svo að það sem maður ræður ekki vel við í æsku getur orðið árátta síðar á lífsleiðinni? Maður fylgdist með föður sínum skrifa mikið af greinum á æskuárunum enda starfaði hann við blaðaútgáfu í áratugi og gott ef hann er ekki enn að. Ég hef fengið staðfest af einum fremsta lesblindu sérfræðingi landsins henni Gyðu Stefánsdóttur vinkonu minni, sem fékk fálkaorðu fyrir störf sín á þessu vettvangi að ég sé dæmigerður slíkur. Reyndar sagði hún að þegar hún hafi einu sinni tekið mig í aukatíma í dönsku sem strák - þá hafi hún í fyrsta sinn gert sér fyrst grein fyrir því að lesblinda væri staðreynd. Hún fer enn að hlæja þegar hún minnist þessa tíma rúmum fjörtiu árum síðar. Ég hugsa að ef einhver einn hafi komið því inn hjá mér að ég gæti sett saman texta þá hafi það verið Þorsteinn Matthíasson rithöfundur og kennari. Ég gékk til hans í aukatíma heilan vetur í landsprófi og hann talaði við mig sem jafningja um textagerð og sýndi mér hvernig hann bæri sig að við ritstörf. Maður er ævilangt þakklátur þeim sem veita manni jákvætt áreiti á lífsleiðinni og segja manni að maður geti líka. Bloggið er ágætis vettvangur fyrir þá sem hafa gaman af að tjá sig í rituðu máli. Auðvitað er undirliggjandi vonin um að eiga sér hóp lesenda sem hafa áhuga á skrifunum. Því miður segir teljarinn æðioft aðra sögu. Auðvitað er það svo að fáir nenna að lesa svona texta í gegn. Hjörtur Friðirk sonur segir að ef maður komi efninu ekki til skila á fimmtán sekúndum sé maður búinn að tapa lesanandanum. Miðað við þessa reglu er ég nú kominn inn á "no mans land". Þetta er dálítill "bummer" fyrir egó textasmiðsins, svona eins og þegar sætu stelpurnar þóttust of góðar til að dansa við mann á böllunum í gaggó. Ég ætla eigi að síður að halda aðeins áfram því maður er nú einu sinni að þjóna lund sinni. Eitthvað verður maður að fá út úr þessu - ekki eru það launin. Það eru fjölmargir Íslendingar sem hafa þessa sömu þörf. Það sér maður af öllum bloggsíðunum. Fjölmargir eru að þessu til þess að vekja athygli á textum sínum, eins og þeir sem eru inn á blaðablogginu og málfundasíðunum nú eða eru í framboði. Aðrir fara fáfarnari leiðir og leiða hjá sér kastljós fjölmiðlanna. Bæði með vali á hýsingaraðila fyrir bloggið og efnisumfjöllun. Bloggið kemur svolítið upp um mann ef það er lesið krítískt. Efnisval, afstaða eða afstöðuleysi, það sést fljótt hvort bloggarinn er samkvæmur sjálfum sér og einlægur. Það er svo einkennilegt að uppáhalds bloggararnir mínir eru flestir kvenkyns. Ég hef velt þessu svolítið fyrir mér og komist að þeirri niðurstöðu að þær eru duglegar að skrifa og þær eru einlæglegri, frakkari og hispurslausari en karlkynsbloggarar. Meira síðar.....

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Úff já ég náði að lesa að Gyðu og svo að sjálfsögðu nafnið mitt...

Magnús sagði...

Ef þú vilt uppbyggilega gagnrýni og yfirferð á ég alltaf af slíku yfrið nóg.

Nafnlaus sagði...

Það fer nú bara um mann þegar aðal prófarkalesarinn býður fram aðstoð sína.

Harpa Jónsdóttir sagði...

Til hamingju með útgefandann!