föstudagur, 20. mars 2009

Íslenskt hagkerfi - framlag til endurreisnar.

  • Sveinn Hjörtur Hjartarson

    Miðað við verga landsframleiðslu er íslenska hagkerfið að stærð nálægt miðbiki þeirra þjóða sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn birtir upplýsingar um á veraldarvefnum m.ö.o. Ísland er í 92. sæti meðal 172 þjóða hvað varða stærð efnahagskerfisins í heild. Sé miðað við höfðatölu íbúa er íslenskt hagkerfi aftur á móti í allra fremstu röð. Engu að síður er íslenska samfélagið sem heild að stærð á við miðlungsstóra borg á meginlandi Evrópu. Í þessu felst sérstaða hagkerfisins. Landið býr að miklum náttúruauðlindum og mannauði, þótt fámennur sé, sem leggur mikið upp úr aukinni menntun og almennri velferð einstaklinga.

    Ísland skipar sér í fremstu röð meðal þjóða sem velferðarríki. Á nokkrum áratugum snérist dæmið við. Ísland var ein fátækasta þjóðin í vesturálfu um aldir. Landsmenn hafa verið vel meðvitaðir um gildi þess að efla atvinnulífið sem grunn að aukinni velferð í þjóðfélaginu. Unnið hefur verið að því að koma fleiri stoðum undir hagkerfið með uppbyggingu í þjónustu og iðnaði samhliða landbúnaði og sjávarútvegi. Ísland hefur nýtt sér með skilvirkum hætti það samkeppnisforskot sem skapandi hagkerfi á upplýsinga – og tækniöld getur veitt þjóðum. Mikilvægt er að missa ekki sjónar af styrkleika íslensks samfélags þrátt fyrir tímabundin áföll vegna bankakreppunnar og þeirra efnahagslegu áfalla sem fylgt hafa.

    Sú greining sem hér fer á eftir á styrkleikum, veikleikum, ógnunum og tækifærum eða SVÓT greining eins og hún er almennt kölluð er ekki tæmandi. Hafa verður í huga þegar slík greining er gerð að oftar en ekki sjást ekki fyrir mikilvægir vaxtasprotar, ný tækifæri og eins þá nýjar ógnanir sem kunna að bíða í næstu framtíð. Eigi að síður getur komið sér vel að tíunda þessi atriði til þess að leggja raunhæft mat á stöðu hagkerfisins. Íslenska hagkerfið er í þeirri stöðu að horfurnar eru jákvæðar jafnvel svo að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn taldi á síðasta ári að þrátt fyrir versnandi horfur í efnahagsmálum væru langtímahorfur í hagkerfinu um margt öfundsverðar.

    Styrkleikar:

    . Opið hagkerfi með sveigjanleikja til að bregðast við breyttum aðstæðum.

    · Vel menntaðir einstaklingar í upplýstu lýðræðissamfélagi sem byggir á 1100 ára sögu.

    · Mikil og víðfeðm stjórnmála- og viðskiptatengsl við umheiminn.

    · Öflug heilbrigðisþjónusta og lægri meðalaldur en í nágrannalöndum.

    · Háþróað og tæknivætt samfélag. Stuttar boðleiðir innan sem utan stjórnkerfis .

    · Fjölbreytt atvinnustarfsemi og sveigjanlegur vinnumarkaður. Mikil atvinnuþátttaka. Vinnusemi þykir almennt dyggð.

    · Frumkvæði, áræðni og nýsköpun í atvinnulífi, listum og menningu eru ríkir eiginleikar í fari einstaklinga.

    · Öflugar atvinnugreinar; sjávarútvegur, iðnaður og ýmis þjónusta,sem skila gjaldeyristekjum til þjóðarbúsins. Blómleg starfsemi á öllum sviðum þjóðlífs.

    · Arðbær og traustur sjávarútvegur, þar sem aflamarkskerfi hefur reynst grundvöllur hagræðingar, áætlanagerðar, stöðugleika, framfara og arðsemi.

    · Traust framleiðsla landbúnaðarafurða í hæsta gæðaflokki

    · Dýrmætar náttúruauðlindir; fiskur, fallvötn og jarðvarmi.

    · Gott samgöngunet innanlands og greiðar leiðir til útlanda.

    Veikleikar....
    · Hagkerfið í djúpri niðursveiflu eftir hagvaxtarskeið. Óvissa um íslenska efnahagsstjórn.

    · Fjármálastarfsemi á brauðfótum eftir bankahrunið í haust

    · Viðskiptasiðferði orðið fyrir álitshnekki og stofnanir samfélagsins margar rúnar trausti.

    · Skuldir hins opinbera, einstaklinga og fyrirtækja of miklar.

    · Skortur á raunsæi hefur einkennt mat á hagkvæmni margra fjárfestinga.

    · Mikil verðbólga er undirrót hárra vaxta og vaxandi skattheimtu.

    · Fyrirhyggju og sparnaði hefur verið fórnað á báli neyslu og fjárfestinga.

    · Tilraunir til að draga úr umfangi opinberrar starfsemi hafa litlu skilað.

    · Öflugir þrýstihópar knýja fram launahækkanir úr takti við greiðslugetu samfélagsins.

    · Klíkuskapur og flokkadrættir hafa blómstrað í skjóli samfélagssmæðar.

    Tækifæri....
    · Núverandi ástand kallar á endurmat á flestum sviðum samfélagsins.

    · Opna hagkerfið enn frekar og rjúfa endanlega einangrun landsins.

    · Byggja þarf upp nýtt fjármálakerfi og skilvirkt og hagkvæmt bankakerfi. Þar fari saman dýrmæt/dýrkeypt reynsla og heilbrigð framtíðarsýn.

    · Treysta þarf hagstjórn og endurskoða peningamálastefnu Seðlabanka.

    · Aðlaga skipurit stjórnsýslunnar að þörfum nútímans og framtíðarinnar

    · Kanna þarf markvisst möguleika á upptöku annars gjaldmiðils en krónu.

    · Breyta þarf lagaumhverfi sem takmarkar heimildir ríkis og sveitarfélaga til að takast á hendur skuldbindingar.

    · Skuldsetning atvinnufyrirtækja kallar á sameiningu rekstrareininga og aukna hagræðingu.

    · Útflutningsatvinnuvegunum verði búið ábyrgt rekstrarumhverfi til langframa. Með hámörkun arðsemi af framleiðslu þeirra gegna þeir lykilhlutverki við endurreisn íslensks efnahagslífs.

    · Samfélagið opið fyrir vænlegum nýjungum í atvinnuuppbyggingu.

    Ógnanir....
    · Hætta er á að erfiðar aðstæður í samfélaginu leiði til þess að þjóðin skiptist í fylkingar vegna ósættis um áherslur og leiðir í helstu málaflokkum.

    · Hætta er á að ekki takist að skapa traust á stofnunum samfélagsins að nýju.

    · Hætta er á að langtímamarkmið víki fyrir skammtíma gróðasjónarmiðum.

    · Hætta er á að ungt fólk flytji af landi brott og þannig þyngist byrðar á þá sem eftir sitja.

    · Hætta er á að alheimskreppan dýpki enn frekar og stór ríki og ríkjasambönd hverfi til einangrunarstefnu.

    · Við endurskoðun „leikreglna“ í íslensku samfélagi þarf að vera skýr greinarmunur á þeim reglum sem gefist hafa vel og þeim sem hafa gefist miður (fjármálakerfið).

    · Hætta er á að hróflað verði við aflamarkskerfinu sem er grundvöllur arðsemi íslensks sjávarútvegs.

    · Komi til aðildar Íslands að Evrópusambandinu án varanlegra undanþága í sjávarútvegsmálum mun arðsemi af starfseminni smám saman flytjast úr landi.

Engin ummæli: