miðvikudagur, 11. mars 2009

Hnípin þjóð í vanda.

Í dag talaði ég við Færeying sem spurði hvernig ástandið væri á Íslandi. Ég bar mig vel og sagði það væri svona eftir atvikum. Hann spurði hvort við ættum nóg að borða og hvort okkur væri nokkuð kalt. Hann bætti því við til útskýringar að þessa væri jafnan spurt í Færeyjum þegar grenslast væri fyrir um erfiðar aðstæður. Ég játti því að nóg væri að bíta og brenna. Í gegnum huga minn flaug sænskt háð frá liðnum tíma: "Allting ordnar sig om jag får behålla hälsan og frugan jobbet." Í íslenskri þýðingu: Það verður allt í lagi ef ég held heilsunni og konan vinnunni. Svona samtal leiðir til þess að maður finnur fyrir niðurlægingu okkar. Stoltið er sært og það á ekkert skilt við hroka. Hún er mikil ábyrgð þeirra sem leikið hafa íslenskt samfélag svo grátt sem raun ber vitni. Verst er að ég held að þeir sem beri mesta ábyrgðina kunni ekki að skammast sín. Maður reynir að sætta sig við þessa stöðu enda fær maður víst engu breytt. Eigi að síður blossar reiðin upp með jöfnu millibili. Svo vill maður þess í milli fyrirgefa. Talar um skilyrðislausa fyrirgefningu o.s.fr.. Þá birtist allt í einu franskur saksóknari og minnir á að réttlætið verði að hafa sinn gang. Segir nánast það sama og Göran Person fyrrum forsætisráðherra að vinna verði markvisst í þessum málum. Ná verði því til baka sem sjálftökuliðið hefur mulið undir sig. Þessi vika hefur verið kennslustund í því hvað stjórnkerfið í heild sinni er handónýtt og vanmegnugt og eftir stendur eins og í kvæðinu; dauft er í sveitum, hnipin þjóð í vanda.

Engin ummæli: