laugardagur, 21. mars 2009

Serenatan okkar

Það sló mig í dag að í okkur öllum er líklega hulin laglína, okkar einstaka lag. Þetta gerðist er við vorum að syngja Serenötuna hans Eyþórs Stefánssonar og kórstjórinn lék í kjölfarið lag hans Lindina við texta eftir Huldu til að sýna okkur skyldleika laganna: Hví drúpir laufið á grænni grein? Hví grætur lindin og stynur hljótt? o.s.fr. Það sló mig jafnframt, hvað ef við við gistum þessa jörð og hverfum héðan án þess að nokkurntíma hafa náð að kalla fram laglínuna okkar það er þegar maður hugsar út í það svolítið dapurleg örlög. Ætli það sé ástæðan fyrir því að við eigum öll okkar uppáhaldslög, af því að okkur er ekki öllum gefið að finna okkar eigin laglínu? Lagasmíð annarra sé svona skyndilausn fyrir okkur hin, fjöldann sem ekki finnur laglínuna sína. Ykkur finnst þetta ef til vill ekki skipta máli. Það má vel vera, en ég hefði haft af því gleði af að heyra hvernig mín langlína hljómar. Ég hef þó nokkrar vísbendingar um það hvernig hún myndi hljóma. Hún yrði í hæg, ljúf, tregablandin, en jafnframt kómísk og rómantísk melódía, spiluð og sungin af píanóleikara. Miðað við þessa lýsingu yrði hún örugglega ástaróður til lífsins. Jæja þá er ég búinn að finna enn eitt verkefnið til að grúska í,sem sé hvernig laglínan mín hljómi. Allar ábendingar vel þegnar.

Engin ummæli: