laugardagur, 7. mars 2009

Í fyrsta sinn í Djúpið

Simca. Maður er enn við sama heygarðshornið og í síðustu pistlum að rifja upp minnisstæð ferðalög. Fyrsta sinn sem ég fór ásamt foreldrum og systkinum vestur í Ísafjarðardjúp mun hafa verið í kringum 1960 ég er ekki alveg klár á ártalinu gæti hafa verið 1962 - 1963. Minnissstæðast er að við fórum á bílaleigubíl frá Bílaleigu Batta rauða. Þetta var hvít og rauð Simca (framleiddar fyrst 1961) eins og bíllinn á myndinni með þessum pistli. Ferðin var farin til þess að rifja upp veru pabba í Tungu sem ung drengs og sýna okkur börnunum hvar þessi margumtalaði staður væri. Þegar vestur var komið horfuðum við úr nokkurri fjarlægð heim til Tungu sem þá var í eyði. Bærinn var á hægri hönd þegar komið er niður af Steingrímsfjarðarheiði. Við komumst ekki að bænum þar sem tvær frekar vatnsmiklar ár afgirtu bæinn frá þjóðveginum. Þessar ár eru Hvannadalsá og Lágadalsá sem renna saman fyrir neðan bæinn og renna út í Ísafjörð hjá Nauteyri. Það var ekki fyrr en fjörtíu árum síðar að við fórum alla leið að bænum Tungu á jeppa sem ég átti. Það var líka eins gott því bærinn stendur ekki lengur. Það kveiknaði í honum stuttu seinna. Á leiðinni til baka suður í þessari fyrstu ferð var komið við á Arngerðareyri sem þá var komið í eyði en þar var um tíma verslun, sláturhús og félagsheimili. Við gengum um þennan eyðilega stað og inn í íbúðarhúsið sem minnti einna helst á kastala. Minnisstætt er að það var eins og húsið hafi verið skilið eftir í skyndi því þar inni var ýmis húsbúnaðar og fleira á víð og dreif, þótt enginn byggi þarna. Eftir stutta dvöl í Djúpinu og sögustund um liðna atburði var haldið af stað í bæinn. Við náðum ekki í bæinn á einum degi eins og til stóð. Allir voru orðnir þreyttir þegar myrkva tók. Ákveðið var að tjalda einhversstaðar á leiðinni. Foreldrarnir voru ekki viss í myrkrinu hvar við værum nákvæmlega stödd. Um morgunin þegar viö vöknuðum og fórum út úr tjaldinu sáum við heim að Galtarholti í Borgarfirði. Þetta þótti sérstakt vegna þess að mamma á ættir að rekja til þessa staðar en móðurfólk hennar er ættað frá þessu býli.

Engin ummæli: