sunnudagur, 15. mars 2009

Skaftfellingamessa - Panis angelicus

Kórarnir. Við í Söngfélagi Skaftfellinga sungum við messu í Breiðholtskirkju (índjánatjaldinu í Mjódd) í dag ásamt Samkór Hornafjarðar. Þetta er í fjórða skipti sem sérstök Skaftfellingamessa er haldin í kirkjunni með þessu sniði. Annað hvert ár koma gestir úr austur sýslunni og milli þess fólk úr vestur sýslunni. Eftirminnilegur var söngur ljóðsins Panis angelicus(Brauð englanna) sem sungið var af ungri stúlku, Sólveigu Sigurðardóttur og kórnum. Annars var messan meira og minna með hefðbundnu sniði nema nýjung var að safnaðarfólk tók á móti friðarboðskap og bar hann til safnaðarins. Þetta lag og þessi athöfn er í ætt við kaþólskan sið sem virðist vera að aukast í kirkjum. Eftir messu var boðið upp á kirkjukaffi í boði kórsins í safnaðarheimilinu og þar sungin nokkur lög. Þar var m.a. sungið Bærinn minn sem er hornfirskt lag í útsetningu söngstjórans okkar Friðriks Vignis.
Sigurbjörg Karlsdóttir formaður Samkórsins afhendir Sigurlínu Kirstjánsdóttur gjöf til kórsins. Að þessu sinni voru það prestar úr Austur-Skaftafellssýslu sem tóku þátt í messunni. Sr. Sigurður Kr. Sigurðsson sóknarprestur á Höfn prédikaði og lagði út af því að nú væri frelsarinn reiður. Ritningarlestur lásu sr. Fjalarr Sigurjónsson og sr. Sigurður Kr. Sigurðsson. Prestar Breiðholtskirkju þjónuðu fyrir altari. Organistar voru Friðrik Vignir Stefánsson og Kristín Jóhannesdóttir. Trompetleik annaðist Steinar Þór Kristinsson. Vel á annað hundrað manns sóttu messuna að þessu sinni en í fyrra voru gestir nær tvöhundruð. Þetta var það helsta. Kveðja
Myndir KK

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hef litlu við þetta að bæta nema ég fæ ekki orða bundist yfir þessu "nýja" hundleiðinlega messuformi. Á ég þar einkum við þessi steindauðu messusvör sem hefur verið skipt inná fyrir þau gömlu. Þá heyrast ekki lengur gömlu fallegu sálmarnir í kirkjunum. Þar fyrir utan var þetta hin ágætasta samkoma og gaman að hitta fólk sem annars verður sjaldan á vegi manns. Þakkir til þeirra sem báru hitann og þungann af undirbúningnum og þá ekki síst þeim sem komu um langan veg til gera þetta að veruleika.