laugardagur, 28. mars 2009

Annar í landsfundi.

Dagurinn byrjaði með líflegri umræðu um sjávarútvegsmálin eins og svo oft áður. Það reyndist góð eindrægni vera um málefnavinnunna og var hún samþykkt með miklum meirihluta. Annars verður í mínum huga þessa dags minnst sem hins mikla ræðudags. Frambjóðendur til formannskjörs og varaformannskjörs kynntu sig fyrir fulltrúum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hélt frábæra ræðu þar sem hún reifaði stöðuna og störf sín sem menntamálaráðherra og síðan fór hún yfir rógburð sem hún og fjölskylda hennar hafa mátt sæta í umrótinu undanfarna mánuði. Það fer ekki milli mála að þar er á ferðinni glæst forystukona flokksins á næstu árum. Ræðan hefði hæft vel frambjóðenda í formannskjöri. Næstir voru þeir Bjarni og Kristján Þór. Báðir fluttu mál sitt afbragðsvel, þótt ég telji að Kristján Þór hafi talað af meiri sannfæringu og þannig að það höfðaði til mín - enda á hann á brattan að sækja í þessum slag. Lokaræðu dagsins flutti fyrrverandi formaður flokksins og fyrrum seðlabankastjóri. Frá mörgu var þar skemmtilega sagt. Málin rædd frá hans sjónarhóli. Mér fannst stundum vanta fyllri skýringa á framvindu einkavæðingarinnar og hans hlutverki og ábyrgð. Illa líkaði mér sú einkunn sem hann gaf Vilhjálmi Egilssyni og vinnu endurreisnarnefndarinnar sem hefði átt að kallast að mínu mati ný sókn eða eitthvað í þá áttina. Hún var ómakleg og rætin. Í einu sparki náði hann til 200 - 300 stuðningsmanna flokksins sem að beiðni flokksforystunnar hafa með vinnu sinni skapað nýtt grasrótarstarrf í flokknum eftir átján ára deyfð. Auðvitað er margt sem kemur fram í slíku grasrótarstarfi sem þarfnast nánari skoðunar. Ég vitna þó um það að sú vinna sem þar fór fram var unnin af hreinskiptni, heiðarleika og einlægni þeirra sem að verkinu komu. Tímarnir eru breyttir við lifum í opnara samfélagi. Tími hins sterka einráða leiðtoga er vonandi lokið - allavega í bili. Fólkið sem víða glímir við mikla efnahags erfiðleika í kjölfar falls bankanna mun verða betur á varðbergi um brýnustu hagsmunamál þjóðfélagsins.

Engin ummæli: