fimmtudagur, 5. mars 2009

Fyrsta sinn austur fyrir Jökulsá á Breiðamerkursandi

Við brúarvígsluna 1974 Ég fór á myndakvöld hjá Skaftfellingafélaginu fyrr í vetur. Við það tækifæri rifjaðist upp fyrir mér fyrsta skiptið sem ég fór austur á firði þ.e austur í Lón, lengra var ekki farið í það skiptið. Þetta var í ættarferð með Loftsalasystrum og afkomendum þeirra laugardaginn 13. og sunnudaginn 14. júlí 1974. Loftsalasystur voru móðuramma og ömmusystur Sirrýjar en þær voru tólf og áttu þrjá bræður. Síðari daginn var hringvegurinn opnaður með brúarvígslu á Skeiðarársandi. Ferðin gékk vel í alla staði. Mig minnir að gist hafi verið í tjöldum á Klaustri á laugardeginum. Staldrað var stutt við á Höfn í Hornafirði og eitthvað var stoppað á sandinum enda má sjá hátíðartjaldið í baksýn. Lítið man ég þó eftir hátíðarhöldum nema að Magnús Torfi Ólafsson samgönguráðherra var að halda ræðu. Minnisstæðast úr þessari ferð er hinsvegar þegar Anna Guðbrandsdóttir Kruger sem búsett var í USA og hafði búið þar í áratugi stóð upp og fór með allan Gunnarshólma utanbókar í Fljótshlíðinni á leiðinni til baka til Reykjavíkur. Svona flutning getur sá einn sem dvalið hefur langdvölum erlendis og saknað fósturjarðarinnar - það er ekki hægt að leika svona trega í flutningi ljóðs. Það er ég sannfærður um og trúi því að enginn hafi gleymt þessari stund sem á hlýddi.

Engin ummæli: