mánudagur, 30. mars 2009

Fyrsta sinn til útlanda

Lorelei. Ég hef verið með nokkra "í fyrsta sinn pistla" á þessari bloggsíðu á undanförnum vikum. Þá er komið að því að minnast fyrstu utanlandsferðarinnar. Hún var farin í maí - júní 1975. Við fórum í þriggja vikna ferð til Danmerkur, Þýskalands og Noregs. Í Kaupmannahöfn dvöldum við nokkra daga hjá Elísabetu föðursystur minni og fjölskyldu í Albertslund sem er úthverfi í Kaupmannahöfn. Helstu ferðamannastaðir Íslendinga í borginni voru skoðaðir. Næst fórum við í vikuferð með Tjæreborg ferðaskrifstofunni til Hamborgar, Bremen um Rínar- og Móseldal til Trier og í bakaleiðinni var gist í Hamborg, nánar tiltekið á Hótel Monopol sem var beint á móti hinum fræga Tírólaskemmtistað á Reberbahn - Schillertal. Meðalaldur í rútunni var 70+ og vorum við lang yngst eða rétt rúmlega tvítug. Þetta voru allt frábærir ferðafélagar. Næst okkur í aldri voru íslensk heiðurshjón um fimmtugt Jón og Ólafía sem urðu okkar bestu ferðafélagar í þessari skemmtilegu og eftirminnilegu ferð. Ég minnist kvöldsins í ráðhúskjallaranum í Bremen. Þegar Danirnir sem sumir voru fæddir Þjóðverjar gáfu fiðluleikurunum þjórfé eins og á að gefa þjórfé. Viðkvæðisins að nú væri hægt að leggja af stað því Íslendingarnir væru komnir. Kókdrykkju okkar templaranna fyrir 1DM glasið í Moseldal þegar hvítvínglasið kostaði 20pf. Heimsóknarinnar í Asbach Uralt brandí verksmiðjuna í Rínardal. Siglingarinnar á Rín framhjá Lorilei kettinum. Vínviðarins í þessum frægu dölum. Allra fallegu ferðamannabæjanna og fljótaprammanna. Kyrraðarstundar "An der Ecke" í Koblenz þar sem Rín og Mosel mætast.Þegar við Jón fórum á búlluna og til stóð að ræna okkur þar um hábjartan dag fyrir að bjóða stúlku upp á kampavínsglas. Að lokinni Þýskalandsferðinni fórum við til Osló og dvöldum þar síðustu vikuna. Þar gengum við á Karl Johann og snæddum pizzur. Við lentum fyrir tilviljun í boði ásamt öðrum Íslendingum á 17. júní hjá sendiherranum í Osló. Þennan dag ákváðum við að prófa búsetu erlendis og fara til náms næsta haust og reyndist það farsæl ákvörðun. Við fluttum að vísu til Svíþjóðar en ekki Noregs vegna þess að við vildum vera miðsvæðis í Scandinavíu.

Engin ummæli: